André Villas-Boas forseti Porto hefur tjáð sig um kaup félagsins á spænska framherjanum Samu Omorodion sem hefur farið ótrúlega vel af stað á sínu fyrsta tímabili í portúgalska boltanum.
Omorodion er aðeins 20 ára gamall og keypti Porto hann í nokkuð sérstökum félagaskiptum í sumar. Porto keypti 50% hlut í leikmanninum fyrir 15 milljónir evra, með ákvæði um að geta keypt restina af leikmanninum næstu tvö árin fyrir 10 milljónir til viðbótar.
Porto getur því keypt Omorodion til sín fyrir 25 milljónir evra en þessi öflugi leikmaður er búinn að skora 12 mörk í 13 leikjum í öllum keppnum á upphafi tímabils.
„Það var mikilvægt fyrir okkur að halda kaupunum á Samu leyndum. Önnur félög máttu ekki frétta af þessu, það hefði flækt hlutina fyrir okkur. Þess vegna reyndum við að ljúka félagaskiptunum sem fyrst og ræddum þau ekki við neinn," sagði Villas-Boas um kaupin á Omorodion.
„Ég veit ekki hvað hefði gerst ef önnur félög hefðu fengið veður af því að við værum að kaupa 50% hlut í Samu fyrir 15 milljónir."
Athugasemdir