Hollenski þjálfarinn Ruud van Nistelrooy hefur sótt um starfið hjá enska B-deildarfélaginu Coventry City en þetta kemur fram í Daily Mirror í dag.
Van Nistelrooy yfirgaf Manchester United á dögunum eftir að hafa stýrt liðinu í fjórum leikjum sem bráðabirgðastjóri félagsins.
Hann kom til United í sumar og var þá ráðinn sem aðstoðarmaður Erik ten Hag, en var gerður að bráðabirgðastjóra eftir að sá síðarnefndi var látinn fara.
Van Nistelrooy vann þrjá leiki og gerði eitt jafntefli sem stjóri United áður en Ruben Amorim tók við liðinu.
Daily Mirror greinir nú frá því að Hollendingurinn gæti verið áfram á Englandi.
Hann hefur sótt um stjórastöðuna hjá Coventry City. Frank Lampard kemur einnig til greina í starfið en Doug King, eigandi Coventry, staðfesti umsókn Englendingsins fyrir skömmu.
Coventry lét Mark Robins taka poka sinn eftir að hafa stýrt liðinu síðustu sjö ár en sú ákvörðun féll ekki í kramið hjá stuðningsmönnum félagsins.
Liðið er í 17. sæti ensku B-deildarinnar með aðeins 16 stig eftir fimmtán leiki.
Athugasemdir