Kelleher með Guðmundi Sævari Hreiðarssyni, markmannsþjálfara írska landsliðsins. Guðmundur starfaði sem markmannsþjálfari hjá KR, ÍA og íslenska landsliðinu áður en hann fór með Heimi til Írlands.
Írski landsliðsmarkvörðurinn Caoimhin Kelleher hefur verið frábær á milli stanga Liverpool í fjarveru aðalmarkvarðarins Alisson Becker sem hefur verið að glíma við meiðsli.
Nú virðist Alisson þó vera búinn að jafna sig eftir meiðslin og hefur Arne Slot þjálfari Liverpool gefið út að brasilíski markvörðurinn fari beint aftur í byrjunarliðið við endurkomuna.
John Aldridge, goðsögn hjá Liverpool og írska landsliðinu, tjáði sig um markmannsstöðuna hjá sínu fyrrum félagi.
„Kelleher hefur verið stórkostlegur og að mínu mati er þetta mjög erfið ákvörðun fyrir Arne Slot. Mér finnst ekki sanngjarnt að bekkja Kelleher, hann hefur verið óaðfinnanlegur síðustu vikur. Hann á ekki skilið að fara á bekkinn," sagði Aldridge um samlanda sinn.
Kelleher átti stórleik er Írland lagði Finnland að velli í Þjóðadeildinni á dögunum og var honum hrósað í hástert að leikslokum.
„Eftir fimm eða sex ár held ég að hann verði einn af tveimur bestu markvörðum heims," sagði Kevin Doyle, fyrrum framherji írska landsliðsins og Wolves, í beinni útsendingu í írska ríkissjónvarpinu.
„Hann er frábær markvörður, hann er góður í öllu sem hann gerir. Hann getur gert allt sem nútíma markvörður þarf að geta. Ef hann fær meiri spiltíma á næstu árum þá getur hann orðið einn af allra bestu markvörðum heims."
Mikið hefur verið rætt um framtíð Kelleher að undanförnu þar sem hann þykir of góður til að vera varamarkvörður. Hann vill sjálfur fá byrjunarliðssæti á næstu leiktíð og þarf líklega að yfirgefa Liverpool til þess. Alisson er ofar í goggunarröðinni og þá er Giorgi Mamardashvili einnig á leiðinni til félagsins þegar samningur hans við Valencia rennur út næsta sumar.
Athugasemdir