Umboðsmaður kanadíska landsliðsmannsins Alphonso Davies segir það ekki rétt að leikmaðurinn sé búinn að ná samkomulagi við Real Madrid um að ganga í raðir félagsins næsta sumar.
Davies, sem er 24 ára gamall, verður samningslaus á næsta ári, en hann hefur verið sterklega orðaður við Real Madrid síðasta árið eða svo.
Spænskir fjölmiðlar greindu frá því á dögunum að Davies væri búinn að samþykkja það að ganga í raðir Real Madrid og að hann myndi skrifa undir samkomulagið í byrjun janúar, en umboðsmaðurinn neitar þessum fregnum.
„Þetta er ekki satt. Þó leikmaðurinn sé vissulega með marga möguleika í stöðunni þá höfum við ekki náð samkomulagi við neitt félag. Bayern gæti einnig verið möguleiki, en allar fréttir sem gefa annað í skyn er einfaldlega ekki rétt,“ sagði Nedal Huoseh, umboðsmaður Davies í samtali við blaðamanninn Philipp Kessler.
Athugasemdir