Atletico íhugar að gera tilboð í Garnacho - Man Utd langt komið í viðræðum við Diallo - Dybala má fara ef hann er ósáttur
   mið 18. desember 2024 19:04
Brynjar Ingi Erluson
Álfukeppnin: Mbappe maður leiksins er Real Madrid varð meistari
Kylian Mbappe naut sín vel í Katar
Kylian Mbappe naut sín vel í Katar
Mynd: Getty Images
Real Madrid 3 - 0 Pachuca
1-0 Kylian Mbappe ('37 )
2-0 Rodrygo ('53 )
3-0 Vinicius Junior ('84, víti )

Real Madrid vann annan bikarinn á þessu tímabili er liðið vann Pachuca, 3-0, í úrslitaleik Álfukeppninnar í Lusail í Katar í kvöld.

FIFA kynnti Álfukeppnina í desember á síðasta ári og fór fyrsta keppnin fram á þessari leiktíð.

Sex sigurvegarar úr sex álfum tóku þátt en Real Madrid sat hjá í fyrstu tveimur umferðunum. Mexíkóska liðið Pachuca vann Botafogo frá Brasilíu í fyrstu umferð og hafði síðan betur gegn egypska liðinu Al-Ahly í undanúrslitum.

Real Madrid var of stór biti fyrir Pachuca. Franski sóknarmaðurinn Kylian Mbappe skoraði fyrsta mark Madrídinga á 37. mínútu eftir undirbúning Vinicius Junior og þá lagði Frakkinn upp annað markið fyrir Rodrygo snemma í síðari hálfleik.

Mbappe á súrsætar minningar frá þessum velli en hann skoraði þrennu fyrir Frakkland í svekkjandi tapi gegn Argentínu í úrslitaleik HM fyrir tveimur árum á þessum velli.

Mbappe var tekinn af velli þegar hálftími var eftir og um tuttugu mínútum síðar rak Vinicius smiðshöggið með marki úr vítaspyrnu.

Real Madrid er Álfukeppnismeistari í fyrsta sinn í sögunni og er nú komið með tvo titla á þessari leiktíð en það varð einnig Ofurbikarmeistari í byrjun tímabils er liðið vann Evrópudeildarmeistara Atalanta með tveimur mörkum gegn engu.
Athugasemdir
banner
banner
banner