Atletico íhugar að gera tilboð í Garnacho - Man Utd langt komið í viðræðum við Diallo - Dybala má fara ef hann er ósáttur
   mið 18. desember 2024 21:21
Brynjar Ingi Erluson
Choupo-Moting í MLS-deildina (Staðfest)
Mynd: EPA
Kamerúnski sóknarmaðurinn Eric Maxim Choupo-Moting hefur fundið sér nýtt félag eftir að hafa yfirgefið Bayern München í sumar, en hann er genginn í raðir New York Red Bulls í Bandaríkjunum.

Choupo-Moting er 35 ára gamall sem hefur átt litríkan atvinnumannaferil.

Framherjinn spilaði með Hamburger SV, Mainz og Schalke í Þýskalandi áður en hann samdi við Stoke City árið 2017.

Þar lék hann eitt tímabil með liðinu í ensku úrvalsdeildinni og skoraði fimm mörk er liðið féll niður í B-deildina.

Umboðsmaður hans framkvæmdi kraftaverk fyrir leikmanninn sem samdi óvænt við Paris Saint-Germain í Frakklandi. Þar lék hann í tvö ár og fór meðal annars með liðinu í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

Hann lék 51 leik og skoraði 9 mörk á tveimur tímabilum sínum þar og hafnaði meðal annars því að framlengja við félagið áður en hann samdi við Bayern.

Besta tímabil Choupo-Moting hjá Bayern var tímabilið 2022-2023 er hann skoraði 17 mörk í öllum keppnum. Hann vann sex titla á fjórum tímabilum sínum í Þýskalandi.

Choupo-Moting er nú að mæta aftur á völlinn um sex mánuðum eftir að hann fór frá Bayern en hann hefur skrifað undir tveggja ára samning við New York Red Bulls í MLS-deildinni í Bandaríkjunum.

Félagið komst alla leið í úrslit MLS-bikarsins á nýafstaðinni leiktíð en tapaði fyrir Los Angeles Galaxy. Félagið hefur þrisvar orðið deildarmeistari en aldrei unnið MLS-bikarinn.


Athugasemdir
banner
banner