Eddie Howe er gríðarlega sáttur með bakvörðinn unga Lewis Hall sem hefur verið mikilvægur hlekkur í liði Newcastle á fyrri hluta tímabils.
Hinn tvítugi Hall átti magnaðan leik í 4-0 sigri Newcastle United gegn Leicester City í síðustu umferð. Hann var verulega góður í 1-0 sigri gegn Arsenal í byrjun nóvember og stóð sig einnig mjög vel með enska landsliðinu í stórsigrum gegn Grikklandi og Írlandi í Þjóðadeildinni.
„Hann hefur verið virkilega góður á fyrri hluta tímabilsins. Maður getur alltaf treyst á að Lewis standi sig vel, það skiptir engu máli hvort við séum að spila á heimavelli eða útivelli, hann skilar alltaf sinni frammistöðu. Það er magnað fyrir svona ungan leikmann," segir Howe um bakvörðinn.
„Hann er ótrúlega góður fótboltamaður og er stöðugt að bæta sig. Hann er með frábæran vinstri fót og ofan á þetta allt er hann mjög þroskaður einstaklingur bæði innan sem utan vallar."
Newcastle keypti Lewis Hall frá Chelsea síðasta sumar fyrir rúmlega 30 milljónir punda.
Athugasemdir