Lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildar kvenna lýkur í kvöld þar sem stórveldi eru að berjast um toppsæti riðla sinna.
Ríkjandi meistarar Barcelona taka á móti Manchester City í D-riðli en Börsungar töpuðu fyrri leik liðanna 2-0 í Manchester.
Barca þarf því tveggja marka sigur eða meira til að hirða toppsætið af Man City.
Í C-riðli eru það Arsenal og FC Bayern sem berjast um toppsætið, þar sem heimakonur í liði Arsenal hafa harma að hefna eftir stórt tap í München í október.
Arsenal nægir að sigra gegn Bayern til að taka toppsætið, en liðið hefur verið á blússandi siglingu allt frá því að Renée Slegers tók við stjórnartaumunum af Jonas Eidevall.
Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur í liði Bayern eru á ótrúlega góðu skriði og hafa ekki tapað nema tveimur fótboltaleikjum á dagatalsárinu 2024 - en bæði töpin komu gegn Wolfsburg.
Í öðrum leikjum dagsins spilar St. Pölten við Hammarby áður en Juventus tekur á móti Vålerenga. Sædís Rún Heiðarsdóttir gæti verið í byrjunarliði Vålerenga.
Leikir dagsins:
17:45 Barcelona - Manchester City
17:45 St. Polten - Hammarby
20:00 Arsenal - Bayern
20:00 Juventus - Valerenga
Athugasemdir