Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fim 22. júní 2023 14:23
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Í flest skallaeinvígi þrátt fyrir að vera ein sú lágvaxnasta í deildinni
Cousins í leik með Þrótti.
Cousins í leik með Þrótti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Katie Cousins er klárlega einn besti leikmaður Bestu deildar kvenna, en hún sneri aftur í Þrótt fyrir þetta tímabil eftir að hafa verið á mála hjá Angel City í Bandaríkjunum.

Sjá einnig:
Komin heim í lið sem hún elskar - „Þá þarft þú að vinna bestu liðin"

Katie er mætt aftur í íslenskan fótbolta eftir að hafa spilað hér með Þrótti sumarið 2021. Hún var einn besti leikmaður deildarinnar og var valin inn á miðjuna í liði ársins ásamt Láru Kristínu Pedersen og Dóru Maríu Lárusdóttur það sumar.

Katie, sem er 26 ára, er gríðarlega góð á boltanum og er með mjög flottar sendingar. Það er gríðarlega erfitt að ná af henni boltanum.

Hún er í raun með allan pakkann fyrir miðjumann því hún er líka með mikla áræðni og mikinn kraft. Ein athyglisverðasta tölfræðin í Bestu deild kvenna er sú að Katie hefur farið upp í langflest skallaeinvígi af öllum leikmönnum deildarinnar en hún hefur farið í 60 skallaeinvígi. Næsti leikmaður á listanum er Murielle Tiernan, sem hefur farið upp í 42 skallaeinvígi.

Þrátt fyrir að vera einn lágvaxnasti leikmaður deildarinnar - um 155 sentímetrar á hæð - þá er Katie aldrei hrædd við að hoppa upp í skallabolta. Hún er í 14. sæti af öllum leikmönnum deildarinnar í prósentu yfir skallaeinvígi unnin sem er einnig mjög merkilegt. Hún er að vinna 46,67 skallaeinvíga sinna sem er afskaplega vel gert.

„Þrátt fyrir að vera ekki hávaxin þá er hún einn allra besti skallamaður deildarinnar," skrifaði Óskar Smári Haraldsson, þjálfari Fram og sérfræðingur Fótbolta.net, um Katie fyrir tímabilið og það er að reynast rétt.

Katie er ofarlega í nokkrum tölfræðiþáttum en það að hún sé svona ofarlega í þessum tölfræðiþætti er ansi áhugavert. Það segir kannski líka mikið um fótboltagáfur hennar og kraftinn sem býr í henni; þó þú sért lágvaxin þá geturðu unnið skallabolta fyrir liðið þitt með góðum staðsetningum, tímasetningum og hugrekki. Katie er að sýna það.
Athugasemdir
banner
banner