lau 24. september 2022 19:21
Ívan Guðjón Baldursson
Tveir teknir úr hópi Norður-Íra - Kölluðu slagorð lýðveldishersins
Mynd: Getty Images

Það ríkja vandræði innan herbúða norður-írska landsliðsins sem ákvað að taka tvo leikmenn úr leikmannahópi sínum fyrir 2-1 sigur liðsins gegn Kósovó í dag.


Annar þeirra er goðsögnin Kyle Lafferty sem er 35 ára gamall og hefur gert 20 mörk í 85 landsleikjum. Hann var tekinn úr hópnum vegna mögulega fordómafullra ummæla sem náðust á myndband. Norður-írska knattspyrnusambandið er með málið til rannsóknar

Lafferty spilar fyrir Kilmarnock í Skotlandi sem gaf út yfirlýsingu vegna málsins, rétt eins og norður-írska sambandið. Ian Baraclough, landsliðsþjálfari Norður-Íra, segist hafa séð myndbandið en neitaði að tjá sig um ummælin. Í Bretlandi er mikil saga á bakvið baráttu kaþólikka og þeirra sem voru mótmælendatrúar en Lafferty er kaþólskur Norður-Íri og kallaði slagorð sem var vinsælt í írska lýðveldishernum (IRA) undir lok síðustu aldar.

„Það væri rangt af mér að tjá mig um málið að svo stöddu. Þetta mál er til rannsóknar hjá viðeigandi aðilum. Hann hefur heldur ekki æft síðustu daga vegna vandamáls í baki og því ákváðum við að það væri einfaldast fyrir alla að taka hann úr hópnum að svo stöddu," sagði Baraclough.

Hinn leikmaðurinn er Conor McMenamin sem var tekinn úr hópnum vegna gamals myndbands af honum sem fannst á samfélagsmiðlum. Þar var McMenamin 16 ára gamall og kallaði ýmis slagorð frá fyrrnefnda lýðveldisher Írlands, sem var álitinn sem hryðjuverkasamtök af bresku ríkisstjórninni.

McMenamin er 27 ára gamall í dag og er nýr í landsliðinu. Hann er kantmaður hjá Glentoran í heimalandinu og byrjaði síðustu tvo leiki Norður-Írlands í júní, 3-2 tapi gegn Kósovó og 2-2 jafntefli við Kýpur.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner