Man City horfir til Gyökeres - Xavi vill taka Raphinha með sér - Man Utd gæti lánað Antony
   fim 24. október 2024 21:02
Brynjar Ingi Erluson
Evrópudeildin: Mourinho sá rautt og Man Utd enn án sigurs - Tottenham með fullt hús stiga
Jose Mourinho var rekinn upp í stúku snemma í síðari hálfleik
Jose Mourinho var rekinn upp í stúku snemma í síðari hálfleik
Mynd: Getty Images
Christian Eriksen skoraði mark United
Christian Eriksen skoraði mark United
Mynd: Getty Images
Richarlison heimtaði að taka vítaspyrnuna og skoraði
Richarlison heimtaði að taka vítaspyrnuna og skoraði
Mynd: Getty Images
Manchester United er enn án sigurs í Evrópudeildinni á þessu tímabili eftir að liðið gerði 1-1 jafntefli við Fenerbahce í Tyrklandi í kvöld. Jose Mourinho, fyrrum stjóri United og núverandi þjálfari Fenerbahce, fékk rauða spjaldið í síðari hálfleik.

United hefur gengið illa að ná í góð úrslit, bæði í deild og Evrópudeild á tímabilinu.

Liðið var án margra leikmanna í kvöld og þurfti Erik ten Hag að gera margar breytingar á liðinu. Noussair Mazraoui spilaði sem sóknartengiliður og þá var Lisandro Martínez í vinstri bakverði.

United tók forystuna eftir fimmtán mínútur. Gestirnir keyrðu upp í hraða skyndisókn og var það Joshua Zirkzee sem spilaði boltanum á vinstri vænginn á Alejandro Garnacho. Hann færði boltann aftur inn í teig á Mazraoui, sem lagði hann fyrir Zirkzee. Hollendingurinn náði ekki að koma sér í skotstöðu, en hann hins vegar Christian Eriksen við vítateigslínuna sem afgreiddi boltann snyrtilega í vinstra hornið.

Marcus Rashford fékk frábært færi til að tvöfalda forystuna á 22. mínútu er hann vann sig inn í teiginn en skot hans sleikti stöngina vinstra megin. Aðeins tæpri mínútu síðar átti Fenerbahce að jafna metin. Onana varði fyrirgjöf út í teiginn og á Dusan Tadic sem var einn fyrir opnu marki, en Manuel Ugarte kom með einhverja svakalegustu björgunkeppninnar til þessa með því að kasta sér fyrir skotið og koma í veg fyrir mark.

Heimamenn unnu sig aðeins betur inn í leikinn og fékk Youssef En Nesyri tvö dauðafæri til að jafna. Fyrra færið kom eftir fyrirgjöf frá vinstri sem En Nesyri stangaði í átt að horninu en André Onana varði frábærlega út í teiginn. Fenerbahce náði að koma öðrum bolta fyrir markið og aftur var það En Nesyri sem kom hausnum í hann, en Onana sagði lok, lok og læs.

United fór með 1-0 forystu inn í hálfleikinn en var ekki lengi að kasta henni frá sér.

Allan Saint-Maximin kom með laglega fyrirgjöf á vinstri vængnum og á fjær á En Nesyri sem tókst í þetta sinn að stýra boltanum með hausnum og framhjá Onana í markinu.

Heimamenn vildu fá vítaspyrnu tæpum tíu mínútum síðar er Ugarte virtist stíga á Bright Osayi-Samuel í teignum. Engin vítaspyrna var dæmd og var Jose Mourinho, þjálfari Fenerbahce, í kjölfarið rekinn upp í stúku fyrir að mótmæla ákvörðun dómarans.

Nokkrum mínútum eftir það atvik fengu United-menn dauðafæri er Rasmus Höjlund slapp í gegn hægra megin. Hann kom boltanum í teiginn á Rashford sem setti boltann framhjá, en sendingin var heldur óþægileg fyrir Rashford sem náði ekki að gera sér mat úr henni.

United var líklegra liðið til þess að taka sigurinn. Dominik Livakovic var nokkuð öruggur í sínum aðgerðum í markinu og tókst gestunum ekki að sækja sigurmark.

1-1 jafntefli niðurstaðan í Tyrklandi og United með 3 stig eftir þrjá leiki en Fenerbahce með fimm stig.

Tottenham lagði þá AZ Alkmaar að velli, 1-0, í Lundúnum. Ange Postecoglou, stjóri Tottenham, gerði níu breytingar á byrjunarliðinu.

Heimamenn náðu lítið að ógna hollenska liðinu í fyrri hálfleik en Timo Werner fór illa með eitt færi eftir sendingu Lucas Bergvall og þá vildi James Maddison fá vítaspyrnu um miðjan hálfleikinn.

Tottenham kom öflugara til leiks í síðari hálfleik og tók forystuna þegar nokkrar mínútur voru liðnar eftir að Bergvall var tekinn niður í teignum.

Richarlison og Maddison rifust aðeins um hver ætti að taka spyrnuna en Maddison gaf sig á endanum og fékk brasilíski framherjinn að taka spyrnuna. Hann skoraði af öryggi á mitt markið og fagnaði auðvitað með því að taka fugladansinn.

AZ spilaði manni færri síðustu mínútur leiksins eftir að David Moller Wolfe fékk sitt annað gula spjald í leiknum.

Lokatölur 1-0 fyrir Tottenham sem er með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir.

Daníel Tristan Guðjohnsen var ónotaður varamaður hjá Malmö sem tapaði fyrir Olympiakos, 1-0, í Malmö og þá var Nico Williams hetja Athletic Bilbao í 1-0 sigrinum á Slavía Prag.

Úrslit og markaskorarar:

Athletic 1 - 0 Slavia Praha
1-0 Nico Williams ('33 )

Porto 2 - 0 Hoffenheim
1-0 Tiago Djalo ('45 )
2-0 Samu Omorodion ('75 )

Twente 0 - 2 Lazio
0-1 Pedro ('35 )
0-2 Gustav Isaksen ('87 )
Rautt spjald: Lars Unnerstall, Twente ('11)

Fenerbahce 1 - 1 Manchester Utd
0-1 Christian Eriksen ('15 )
1-1 Youssef En-Nesyri ('49 )

Lyon 0 - 1 Besiktas
0-1 Gedson Fernandes ('71 )

Malmo FF 0 - 1 Olympiakos
0-1 Ayoub El Kaabi ('30 )
0-1 Ayoub El Kaabi ('83 , Misnotað víti)

Rangers 4 - 0 Steaua
1-0 Tom Lawrence ('10 )
2-0 Vaclav Cerny ('31 )
3-0 Vaclav Cerny ('55 )
4-0 Hamza Igamane ('72 )

Anderlecht 2 - 0 Ludogorets
1-0 Samuel Edozie ('67 )
2-0 Anders Dreyer ('90 )
Rautt spjald: Caio Vidal, Ludogorets ('30)

Tottenham 1 - 0 AZ
1-0 Richarlison ('52 , víti)
Rautt spjald: David Wolfe, AZ ('85)
Athugasemdir
banner