Man Utd hefur rætt við Xavi - Potter, Moyes og Southgate orðaðir við Palace - Terzic orðaður við West Ham
banner
   mið 23. október 2024 21:01
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeildin: Nunez hetjan í Leipzig - Raphinha gerði þrennu í sigri á Bayern
Raphinha skoraði þrennu gegn Bayern
Raphinha skoraði þrennu gegn Bayern
Mynd: Getty Images
Darwin Nunez skoraði sigurmark Liverpool
Darwin Nunez skoraði sigurmark Liverpool
Mynd: Getty Images
Erling Braut Haaland skoraði tvö en fyrra markið var í glæsilegri kantinum
Erling Braut Haaland skoraði tvö en fyrra markið var í glæsilegri kantinum
Mynd: Getty Images
Liverpool er áfram með fullt hús stiga í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu eftir að liðið vann Leipzig, 1-0, í Þýskalandi í kvöld, en það var úrúgvæski sóknarmaðurinn Darwin Nunez sem gerði sigurmarkið. Raphinha skoraði þá þrennu er Barcelona vann Bayern München, 4-1 á Nou Camp.

Lærisveinar Arne Slot héldu uppteknum hætti í keppninni en liðið byrjaði leikinn ekkert svakalega vel. Pressan hjá Leipzig var góð og var það ekki fyrr en á 27. mínútu sem Liverpool tókst að taka aðeins meiri völd.

Mohamed Salah átti skalla í teignum sem var á leið í átt að stönginni áður en Nunez kom á ferðinni og hamraði boltanum í netið. Annað mark hans á tímabilinu.

Liverpool skapaði sér fleiri færi eftir það og fékk svo sannarlega tækifærin til þess að gera fleiri mörk. Liðið vildi þá vítaspyrnu er Willy Orban felldi Nunez í teignum, en fékk ekki. Orban tók Nunez úr jafnvægi og í raun undarlegt að vítaspyrnan hafi ekki verið gefin.

Gestirnir komu ágætlega inn í síðari hálfleikinn. Cody Gakpo fékk frábært færi til að skora annað markið en Peter Gulacsi varði vel og þá átti Alexis Mac Allister tilraun sem hafnaði í þverslánni.

Leipzig kom sér betur inn í leikinn og fór að skapa nokkra góða sénsa. Írski markvörðurinn Caoimhin Kelleher er að leysa Alisson af hólmi í marki Liverpool og hefur verið að skila sínu ágætlega. Hann kom nokkrum sinnum til bjargar í kvöld og hjálpaði liðinu að landa sigrinum.

Á lokamínútum leiksins töldu heimamenn sig hafa jafnað leikinn er Lois Openda setti boltann í netið, en markið var dæmt af vegna rangstöðu í aðdragandanum.

Liverpool fagnaði þriðja sigrinum og er með fullt hús stiga ásamt Aston Villa, en Leipzig er áfram án stiga.

Englandsmeistarar Manchester City unnu sannfærandi 5-0 sigur á Spörtu Prag á Etihad.

Sigurinn var heldur þægilegur. Phil Foden, sem hefur ekki enn tekist að skora í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu, gerði annað mark sitt í Meistaradeildinni á 3. mínútu og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.

Í þeim síðari völtu City-menn yfir Spörtu. Erling Braut Haaland skoraði algert draumamark á 58. mínútu er hann setti hælinn út í loft eftir fyrirgjöf Savinho og stýrði boltanum í hægra hornið.

Matheus Nunes lagði upp næstu tvö mörk fyrir John Stones og Haaland áður en Nunes skoraði síðan sitt fyrsta mark í keppninni úr vítaspyrnu þegar lítið var eftir af leiknum.

Man City er með 7 stig í 3. sæti en Sparta Prag í 21. sæti með 4 stig.

Brasilíski vængmaðurinn Raphinha hefur verið mikið í umræðunni síðustu daga. Hann sagðist særður eftir umræðu sumarsins um að Barcelona ætlaði sér að sækja Nico Williams og gefa honum treyjunúmerið hans Raphinha.

Raphinha svaraði því á vellinum með því að skora þrennu í 4-1 sigri á Bayern München.

Hann gerði fyrsta markið eftir tæpa mínútu áður en Harry Kane jafnaði rúmum fimmtán mínútum síðar.

Robert Lewandowski kom Barcelona aftur í forystu gegn gömlu félögunum áður en Raphinha gerði annað mark sitt undir lok fyrri hálfleiks.

Raphinha fullkomnaði síðan þrennuna snemma í síðari hálfleik og þar við sat.

Barcelona er með 6 stig en Bayern aðeins 3 stig.

Marcus Thuram var hetja Inter í 1-0 sigrinum á Young Boys. Marko Arnautovic klúðraði vítaspyrnu í byrjun síðari hálfleiks og var það ekki fyrr en á þriðju mínútu í uppbótartíma sem Thuram gerði sigurmarkið.

Dinamo Zabreg vann Salzburg, 2-0, á meðan Lille vann óvæntan 3-1 sigur á Atlético Madríd á Spáni. Hákon Arnar Haraldsson var ekki með Lille vegna meiðsla.

Lille hefur komið á óvart í byrjun keppninnar og unnið tvo af þremur leikjum sínum.

Feyenoord lagði þá Benfica að velli, 3-1, í Portúgal.

Atletico Madrid 1 - 3 Lille
1-0 Julian Alvarez ('8 )
1-1 Edon Zhegrova ('61 )
1-2 Jonathan David ('74 , víti)
1-3 Jonathan David ('89 )

Barcelona 4 - 1 Bayern
1-0 Raphinha ('1 )
1-1 Harry Kane ('18 )
2-1 Robert Lewandowski ('36 )
3-1 Raphinha ('45 )
4-1 Raphinha ('56 )

Benfica 1 - 3 Feyenoord
0-1 Ayase Ueda ('12 )
0-2 Antoni Milambo ('33 )
1-2 Muhammed Kerem Akturkoglu ('66 )
1-3 Antoni Milambo ('90 )

Salzburg 0 - 2 Dinamo Zagreb
0-1 Sandro Kulenovic ('49 )
0-2 Bruno Petkovic ('84 )
Rautt spjald: Alexander Schlager, Salzburg ('66)

Manchester City 5 - 0 Sparta Praha
1-0 Phil Foden ('3 )
2-0 Erling Haaland ('58 )
3-0 John Stones ('64 )
4-0 Erling Haaland ('68 )
5-0 Matheus Nunes ('88 , víti)

RB Leipzig 0 - 1 Liverpool
0-1 Darwin Nunez ('27 )

Young Boys 0 - 1 Inter
0-0 Marko Arnautovic ('48 , Misnotað víti)
0-1 Marcus Thuram ('90 )
Athugasemdir
banner
banner