Man Utd hefur rætt við Xavi - Potter, Moyes og Southgate orðaðir við Palace - Terzic orðaður við West Ham
   mið 23. október 2024 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
„Vini verður að vinna Ballon d'Or"
Mynd: EPA
Vinicius skein skært er Real Madrid vann spænsku deildina og Meistaradeildina á síðustu leiktíð.
Vinicius skein skært er Real Madrid vann spænsku deildina og Meistaradeildina á síðustu leiktíð.
Mynd: EPA
Carlo Ancelotti var himinlifandi eftir magnaðan endurkomusigur Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi.

Real var tveimur mörkum undir í hálfleik en Vinicius Junior gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu eftir leikhlé til að hjálpa sínum mönnum til sigurs.

„Það er sjaldgæft að Vinicius eigi svona góðan seinni hálfleik eins og í dag. Hann var með ótrúlega mikla orku og sýndi mikinn persónuleika. Hann mun vinna Ballon d'Or fyrir það sem hann gerði á síðustu leiktíð, ekki það sem er að gera núna," sagði Ancelotti, en það styttist í niðurstöður úr kjörinu um besta fótboltamann heims. „Þessi þrenna getur hjálpað honum að berjast um næsta Ballon d'Or."

Ancelotti gerði engar skiptingar þrátt fyrir að vera tveimur mörkum undir í leikhlé. Hann hélt trausti við sína menn og þeir endurgoldu það með stórkostlegri frammistöðu. Það var aðeins eitt lið á vellinum í síðari hálfleik og verðskulduðu ríkjandi meistarar keppninnar að koma til baka og sigra.

„Við breyttum um leikkerfi í hálfleik og þá byrjuðum við að sækja af meiri ákefð. Við vorum aðeins of feimnir í fyrri hálfleik en það var augljóst hvað við þurftum að gera til að snúa þessu við. Strákarnir juku ákefðina og uppskáru besta seinni hálfleikinn sinn á tímabilinu hingað til. Þetta var glæsileg endurkoma."

Lucas Vázquez var í byrjunarliði Real Madrid í sigrinum og hrósaði hann einnig Vinicius að leikslokum.

„Það ætti að sýna öllum börnum þennan seinni hálfleik hjá Vinicius til að sýna þeim hvernig á að spila fótbolta. Eftir hvert mark sagði ég við hann að hann mun vinna Ballon d'Or," sagði Vázquez.
Athugasemdir
banner
banner
banner