Mörg félög hafa áhuga á Rashford - Fara Antony og Zirkzee á láni? - Undirbúa brottför Alonso - Arsenal skoðar að stækka Emirates
   þri 22. október 2024 20:59
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Ensku liðin sigruðu - Mögnuð endurkoma hjá Real Madrid
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Leikjum kvöldsins í Meistaradeild Evrópu er lokið, þar sem ensku félögin Arsenal og Aston Villa unnu leiki sína á heimavelli.

Arsenal lagði Shakhtar Donetsk að velli á meðan Aston Villa hafði betur gegn Bologna.

Gabriel Martinelli átti skot í stöng í fyrri hálfleik en boltinn fór af markverði Shakhtar og í netið. Arsenal sótti án afláts en tókst ekki að tvöfalda forystuna þrátt fyrir góð færi og klúðraði Leandro Trossard af vítapunktinum á 77. mínútu.

Lokatölur urðu þó 1-0 og er Arsenal komið með sjö stig eftir þrjár umferðir, á meðan Shakhtar er aðeins með eitt stig. Úkraínumennirnir komust sjaldan í færi en áttu frábæra marktilraun í uppbótartímanum, sem David Raya varði meistaralega.

Aston Villa er þá með fullt hús stiga eftir 2-0 sigur og eiga lærisveinar Unai Emery enn eftir að fá mark á sig í deildarkeppninni.

Jhon Durán fékk tækifæri í byrjunarliðinu hjá Aston Villa og skoraði hann seinna mark liðsins í sigirnum, eftir að John McGinn tók forystuna á 55. mínútu.

Gestirnir frá Bologna fengu góð færi til að skora en Emiliano Martínez átti frábæran leik á milli stanganna.

Real Madrid tók þá á móti Borussia Dortmund í stórleik dagsins, þar sem gestirnir frá Þýskalandi komust í tveggja marka forystu og leiddu 0-2 í leikhlé.

Donyell Malen og Jamie Bynoe-Gittens skoruðu mörkin fyrir Dortmund og komst Julian Brandt nálægt því að setja þriðja markið. Heimamenn í liði Real komust einnig nálægt því að skora og hreint með ólíkindum að þeim hafi ekki tekist það fyrir leikhlé.

Í síðari hálfleik réðu Madrídingar ríkjum og gjörsamlega kaffærðu gestunum frá Dortmund. Vinicius Junior fór á kostum og skoraði þrennu á meðan Antonio Rüdiger og Lucas Vazquez komust einnig á blað. Kylian Mbappé og Jude Bellingham áttu stoðsendingar.

Lokatölur urðu því 5-2 fyrir ríkjandi meistara, sem eiga sex stig eftir þrjár umferðir.

Paris Saint-Germain tók þá á móti PSV Eindhoven og lenti í miklu basli með Hollendingana. Noa Lang skoraði eina markið í fyrri hálfleik en PSG var talsvert sterkari aðilinn á vellinum.

Achraf Hakimi jafnaði snemma í síðari hálfleik og sóttu heimamenn án afláts en tókst ekki að skora annað mark þrátt fyrir frábær marktækifæri. Argentínski markvörðurinn Walter Benitez átti stórleik og tókst að bjarga stigi fyrir PSV.

PSG er því komið með fjögur stig eftir þrjár fyrstu umferðirnar, en þetta var annað stigið sem PSV krækir sér í.

Ítalska stórveldið Juventus tók á móti Stuttgart en gestirnir frá Þýskalandi voru mun sterkara liðið í Tórínó. Þeim tókst þó ekki að skora löglegt mark framhjá Mattia Perin fyrr en í uppbótartíma.

Deniz Undav kom boltanum í netið á 48. mínútu en ekki dæmt gilt vegna hendi eftir athugun í VAR herberginu. Brasilíski varnarmaðurinn Danilo fékk svo seinna gula spjaldið sitt á 84. mínútu og var rekinn af velli, en hann gaf andstæðingunum vítaspyrnu í leiðinni.

Enzo Millot steig á vítapunktinn en klúðraði og reyndu heimamenn hvað þeir gátu til að halda í markalaust jafntefli, en það gekk ekki upp. Millot bætti upp fyrir vítaklúðrið með því að leggja upp sigurmarkið fyrir El Bilal Touré á 92. mínútu og urðu lokatölur því 0-1.

Afar dýrmætur sigur fyrir Stuttgart sem er með fjögur stig eftir þrjár umferðir. Þetta er aftur á móti sárt tap fyrir Juventus sem hefði verið með fullt hús stiga með sigri í kvöld.

Að lokum hafði Girona betur á heimavelli gegn Slovan Bratislava á meðan Sporting CP sigraði Sturm Graz í Austurríki.

Aston Villa 2 - 0 Bologna
1-0 John McGinn ('55 )
2-0 Jhon Duran ('64 )

Girona 2 - 0 Slovan
1-0 Miguel Gutierrez ('42 )
2-0 Juanpe ('73 )
2-0 Christian Stuani ('88 , Misnotað víti)

Juventus 0 - 1 Stuttgart
0-0 Enzo Millot ('86 , Misnotað víti)
0-1 El Bilal Toure ('90 )
Rautt spjald: Danilo, Juventus ('84)

Paris Saint Germain 1 - 1 PSV
0-1 Noa Lang ('34 )
1-1 Achraf Hakimi ('55 )

Sturm 0 - 2 Sporting
0-1 Nuno Santos ('23 )
0-2 Viktor Gyokeres ('53 )

Arsenal 1 - 0 Shakhtar D
1-0 Dmytro Riznyk ('29 , sjálfsmark)
1-0 Leandro Trossard ('77 , Misnotað víti)

Real Madrid 5 - 2 Borussia D.
0-1 Donyell Malen ('30 )
0-2 Jamie Gittens ('34 )
1-2 Antonio Rudiger ('60 )
2-2 Vinicius Junior ('62 )
3-2 Lucas Vazquez ('83 )
4-2 Vinicius Junior ('86 )
5-2 Vinicius Junior ('90 )
Athugasemdir
banner
banner