Mörg félög hafa áhuga á Rashford - Fara Antony og Zirkzee á láni? - Undirbúa brottför Alonso - Arsenal skoðar að stækka Emirates
   þri 22. október 2024 22:50
Ívan Guðjón Baldursson
Arteta: Veit ekki hvers vegna Havertz fór ekki á punktinn
Mynd: EPA
Mynd: Arsenal
Mikel Arteta svaraði spurningum eftir 1-0 sigur Arsenal gegn Shakhtar Donetsk í þriðju umferð í deildarkeppni Meistaradeildarinnar.

Arsenal var sterkara liðið en tókst ekki að skora meira en eitt mark, sem var næstum búið að koma í bakið á þeim undir lokin. Spænski landsliðsmarkvörðurinn David Raya bjargaði sínum mönnum með frábærri markvörslu.

„Ég er mjög ánægður með þessi úrslit, það er aldrei auðvelt að spila í Meistaradeildinni. Við áttum að skora meira í fyrri hálfleik og ég tók eftir smá þreytu í síðari hálfleik. Það tók á að spila heila klukkustund einum leikmanni færri fyrir nokkrum dögum. Okkur tókst ekki að ganga frá leiknum en við gerðum vel að landa sigrinum," sagði Arteta.

Leandro Trossard fékk besta tækifæri heimamanna til að tvöfalda forystuna þegar hann steig á vítapunktinn, en hann skaut í mitt markið þar sem markvörður Shakhtar skildi fæturnar eftir og varði.

„Ég veit ekki hvers vegna Kai Havertz tók ekki vítaspyrnuna. Hann er ein af vítaskyttunum en Leo tók þessa spyrnu."

Arteta var sérstaklega ánægður með frammistöðu Gabriel Martinelli og David Raya í leiknum en ítalski varnarmaðurinn Riccardo Calafiori þurfti að fara meiddur af velli.

„Saka er ekki byrjaður að æfa þannig hann verður ekki með í næsta leik og Ricci (Calafiori) fann fyrir sársauka og þurfti að koma af velli. Við höfum smá áhyggjur af því en eigum eftir að rannsaka meiðslin betur. Ég býst ekki við að Martin Ödegaard verði tilbúinn."

Arsenal tekur á móti Liverpool í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar um næstu helgi.
Athugasemdir