Man Utd hefur rætt við Xavi - Potter, Moyes og Southgate orðaðir við Palace - Terzic orðaður við West Ham
   mið 23. október 2024 20:20
Sverrir Örn Einarsson
Niko vill einbeitingu „Ef við hugsum um leikinn á sunnudag á morgun, þá töpum við“
Nikolaj á lokaæfingu Víkinga fyrir leikinn í dag.
Nikolaj á lokaæfingu Víkinga fyrir leikinn í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nikolaj Hansen fyrirliði Víkinga sat fyrir svörum á blaðamannafundi Víkinga fyrir heimaleik þeirra gegn Cercle Brugge frá Belgíu sem fram fer á Kópavogsvelli á morgun en flautað verður til leiks klukkan 14:30.

Nikolaj er sem von er á spenntur fyrir verkefninu og hlakkar til.

Lestu um leikinn: Víkingur R. 0 -  0 Cercle Brugge

„Verkefnið er spennandi og allir leikmenn eru mjög spenntir fyrir þessum leik. Það verður gaman að geta leikið hér fyrir framan okkar fólk okkar fyrsta heimaleik. Þetta verður þó mjög erfitt og við verðum að vera með fulla einbeitingu á leiknum út í gegn.“

Staða Víkinga er nokkuð sérstök þar sem liðið þarf að leika heimaleiki sína á Kópavogsvelli sem allra jafna hýsir leiki Breiðabliks. Liðið sem Víkingar hafa eldað grátt silfur við síðustu ár og mæta næstkomandi sunnudag í hreinum úrslitaleik um hvort liðið stendur uppi sem Íslandsmeistari. Um tilfinninguna að vera fara í þennan leik á Kópavogsvelli sagði Nikolaj.

„Tilfinningin er bara fín, við kunnum vel við að spila hérna og ég held að það skipti okkur ekki öllu hvort við spilum hér eða heima í Víkinni. Auðvitað vildum við gjarnan spila í Víkinni en það er bara ekki í boði og þar við situr.“

Líkt og áður segir eiga Víkingar leik á ný strax næsta sunnudag þegar liðið tekur á móti Breiðablik í stærsta leik efstu deildar á Íslandi í þó nokkur ár. Niko fer ekki í grafgötur með það að liðið má ekki fara fram úr sér og hugsa um þann leik heldur verður það að halda einbeitingu.

„Við þurfum bara að hugsa þetta leik fyrir leik. Við vitum alveg af leiknum á sunnudag en ef við förum að hugsa um það í leiknum á morgun þá munum við tapa. Við þurfum að vera einbeittir á þennan leik til þess að vera tilbúnir og ná úrslitum.“

Leikur Víkinga og Cercle Brugge hefst á Kópavogsvelli klukkan 14:30 á morgun og verður að sjálfsögðu í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net


Athugasemdir
banner