„Þarna er ég í miklu rugli og kominn í mjög slæman félagsskap. Ég á að fara þarna út og það klúðrast svakalega," sagði Sigurður Gísli Snorrason leikmaður Þróttar í Vogum í hlaðvarpsþættinum Miðjan hér á Fótbolta.net sem kemur út í dag.
Sigurður Gísli er þar í spjalli við Hafliða Breiðfjörð sem spyr hann út í frétt Vísis.is frá 25. febrúar síðastliðinn sem fjallar um Íslending sem var í haldi lögreglunnar í Amsterdam eftir að hafa mætt vopnaður byssu í apótek í borginni. Sá maður var Sigurður Gísli.
„Ég lendi í svokallaðri frelsissviptingu í 36 tíma. Ég hef aldrei verið jafnhræddur á ævinni um líf mitt og hélt ég myndi deyja þarna," útskýrir Sigurður Gísli.
„Svo er ég neyddur til að fara að ræna apótek. Ég var ekkert eðlilega ánægður þegar þeir settu mig í það því þá vissi ég að ég myndi ná að losna. Þetta endar á því að ég fæ byssu og á að ræna apótekið en ég var ekki að fara að gera það."
„Það er ekkert sjálfsagt að gera það ekki því undir svona kringumstæðum verður maður rosalega hræddur og stjórnar engu. Ég náði að sleppa því og annars þá værum við ekki að tala saman hér," sagði hann en í kjölfarið fór hann í apótekið og lagði byssuna á borðið. Hann sat í fangaklefa í þrjá daga í Amsterdam en var svo sleppt.
Hann segir frá því í viðtalinu að þeir sem frelsissviptu hann hafi beitt hann ofbeldi á meðan sviptingunni stóð og meðal annars brotið tvö rifbein.
Hér að neðan má hlusta á viðtalið í heild.
Athugasemdir