PSG tilbúið að borga metfé fyrir Yamal - Man Utd í viðræðum við De Ligt
banner
   fös 28. júní 2024 19:59
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: KA hafði betur gegn HK í Kórnum
Hallgrímur Mar skoraði og lagði upp
Hallgrímur Mar skoraði og lagði upp
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Örn byrjaði sinn fyrsta leik og skilaði góðu dagsverki
Viðar Örn byrjaði sinn fyrsta leik og skilaði góðu dagsverki
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Arnar Freyr átti stórleik í marki HK
Arnar Freyr átti stórleik í marki HK
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
HK 1 - 2 KA
0-1 Bjarni Aðalsteinsson ('51 )
0-2 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('82 )
1-2 Arnþór Ari Atlason ('92 )
Lestu um leikinn

KA sótti góðan 2-1 sigur gegn HK í 12. umferð Bestu deildar karla í Kórnum í kvöld.

Viðar Örn Kjartansson var að byrja sinn fyrsta leik með KA frá því hann kom til félagsins og skilaði hann góðu dagsverki, en hann kom sér í urmul af færum og kom boltanum tvisvar í netið. Bæði mörkin þó dæmd af vegna rangstöðu.

Gestirnir voru með öll völd á leiknum en KA hefði eflaust skorað fleiri mörk ef það hefði ekki verið fyrir Arnar Frey Ólafsson í markinu.

Arnar átti góðar vörslur snemma leiks. Hann sá við Daníel Hafsteinssyni, Viðari og Bjarna Aðalsteinssyni áður en Viðar setti boltann í netið.

Daníel átti þrumuskot sem Arnar blakaði út á Viðar sem setti boltann í markið en dæmt af vegna rangstöðu. Viðar fór illa með dauðafæri á 37. mínútu er hann komst einn gegn marki, en sem betur fer fyrir hann var búið að flagga rangstöðu.

Staðan markalaus í hálfleik en KA-menn héldu áfram að pressa heimamenn í þeim síðari.

Fyrsta mark leiksins kom þegar tæpar sex mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Hallgrímur Mar Steingrímsson tók hornspyrnu á fjærstöngina og þar var Bjarni Aðalsteins klár í að skjóta boltanum á markið.

Það voru einhverjar deilur um það hvort boltinn hafi farið inn fyrir línuna. Arnar stöðvaði boltann við línuna, en hann virtist þó hafa verið kominn allur inn fyrir og stóð því markið.

Þegar um klukkutími var liðinn af leiknum kom Viðar boltanum í markið í annað sinn í leiknum, en aftur var hann dæmdur rangstæður. Mjög tæpt.

Arnar Freyr var áfram í essinu sínu í markinu. Hann varði dauðafæri Hallgríms og svo fimmtán mínútum síðar skot Sveins Margeirs Haukssonar úr þröngu færi.

Það var aðeins tímaspursmál hvenær annað markið kæmi í leikinn. Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði það á 82. mínútu. Ásgeir Sigurgeirsson kom með frábæra sendingu inn á miðjan teiginn og þar var Hallgrímur mættur til að skila boltanum á mitt markið, framhjá Arnari og í netið.

Undir lok leiks kom ágætis kraftur í HK. Fyrst átti Birnir Breki Burknason skot yfir markið úr ágætri stöðu. Mínútu síðar lagði hann upp eina mark HK í leiknum er hann keyrði upp hægri vænginn, kom með glæsilega fyrirgjöf á teiginn á Arnþór Ara Atlason sem stangaði boltanum í netið.

KA var í nauðvörn síðustu mínútur leiksins. Á fimmtu mínútu í uppbótartíma vildu heimamenn fá hendi og víti þegar boltinn virtist fara í hönd Rodri, en Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari leiksins, veifaði því frá.

Glæsilegur kafli HK-inga í lokin en þeir vöknuðu til lífsins allt of seint og eru það KA-menn sem fara heim með öll stigin.

KA fer upp úr fallsæti og í 10. sætið með 11 stig en HK er áfram í 9. sæti með 13 stig.
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 14 10 3 1 34 - 14 +20 33
2.    Breiðablik 13 8 2 3 27 - 15 +12 26
3.    Valur 13 7 4 2 32 - 18 +14 25
4.    ÍA 12 6 2 4 24 - 17 +7 20
5.    FH 12 6 2 4 22 - 21 +1 20
6.    Fram 13 4 4 5 19 - 20 -1 16
7.    Stjarnan 13 5 1 7 24 - 28 -4 16
8.    KR 12 3 4 5 22 - 24 -2 13
9.    HK 12 4 1 7 15 - 23 -8 13
10.    KA 12 3 2 7 19 - 28 -9 11
11.    Vestri 12 3 1 8 15 - 31 -16 10
12.    Fylkir 12 2 2 8 18 - 32 -14 8
Athugasemdir
banner
banner