Gordon vill fara til Liverpool - Chelsea vill Williams sem vill fara til Barcelona - Hjulmand orðaður við Burnley
   sun 30. júní 2024 17:35
Brynjar Ingi Erluson
Heimir að hætta með Jamaíku
Heimir Hallgrímsson
Heimir Hallgrímsson
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Heimir Hallgrímsson er að hætta með landslið Jamaíku en þetta segir miðillinn Jamaica Observer.

Talið er að Heimir stýri sínum síðasta landsleik með Jamaíku í nótt er þjóðin mætir Venesúela í lokaleik riðilsins í Copa America.

Samkvæmt Jamaica Observer andar köldu milli Heimis og fótboltasambands Jamaíku og er brottför hans óumflýjanleg á þessum tímapunkti.

„Eins og venjulega þá mun tækninefndin hittast til að fara yfir frammistöðu og íhuga ráðleggingar eftir þátttöku Jamaíku á mótinu,“ sagði Rudolph Speid, formaður nefndarinnar við Jamaica Observer.

Samkvæmt miðlinum þá er ekki hægt að ná sáttum. Skaðinn er skeður og mun Heimir láta af störfum, þó hann eigi tvö ár eftir af samningi sínum.

Stjórn fótboltasambandsins er óánægt með úrslit landsliðsins og hefur ekki lengur trú á að hann geti stýrt liðinu á HM 2026. Þá er talið að samband hans og nokkurra lykilmanna hafi súrnað.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem Jamaican Observer fékk voru leikmenn þá óánægðir með að Heimir hafi ítrekað reynt að fá Leon Bailey, leikmann Aston Villa, til að koma til móts við hópinn á Copa America, þrátt fyrir að hann hafi opinberlega hafnað boði um að spila með landsliðinu.

Bailey talaði opinskátt um fótboltasamband Jamaíku og sagði mikinn skort á allri fagmennsku. Hann hefur því ekki verið til taks undanfarið.

Það fór öfugt ofan í leikmenn að Heimir hafi áfram reynt að fá Bailey í hópinn, sem endaði með því að fótboltasambandið setti Bailey í bann og tók þannig fram fyrir hendur Heimis.

Stjórn fótboltasambandsins var einnig óánægð með að Heimir hafi farið fram á þóknun er Jamaíka komst í Copa America. Sambandið fékk 2 milljónir dollara fyrir að komast á mótið.

Pirringurinn er í báðar áttir. Heimir hefur verið óánægður með ýmislegt innan sambandsins. Það tekur ekki þátt í kostnaði þegar Heimir vill ferðast innan Evrópu til að sannfæra leikmenn um að spila fyrir Jamaíku. Heimi var þá skaffað hús þegar hann flutti til Jamaíku í janúar á síðasta ári, en yfirgaf það fjórum mánuðum síðar.

Hann hefur ekki notið stuðnings frá sambandinu til að útvega vegabréf fyrir leikmenn sem spila á Bretlandseyjum, eins og tildæmis Reiss Nelson og þá vildi hann fá leikmenn sem spila erlendis til að spila fyrir yngri landsliðin, en stjórn sambandsins vildi heldur þróa leikmenn sem eru þegar búsettir í landinu.

Í 26 leikjum Heimis með Jamaíku hefur hann náði í ellefu sigra, tapað níu og gert sex jafntefli.
Athugasemdir
banner
banner
banner