Gordon vill fara til Liverpool - Chelsea vill Williams sem vill fara til Barcelona - Hjulmand orðaður við Burnley
   sun 30. júní 2024 21:44
Brynjar Ingi Erluson
Lengjudeildin: Sonur Ian Jeffs hetja Þróttara - Tvö rauð og sjö mörk er Afturelding vann Njarðvík
Þróttur vann kærkominn sigur í kvöld.
Þróttur vann kærkominn sigur í kvöld.
Mynd: Tryggvi Már Gunnarsson
Elmar Kári Enesson Cogic skoraði tvö í sigri Aftureldingar
Elmar Kári Enesson Cogic skoraði tvö í sigri Aftureldingar
Mynd: Raggi Óla
Tveir voru reknir af velli í liði Njarðvíkur
Tveir voru reknir af velli í liði Njarðvíkur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Afturelding bar sigur úr býtum gegn Njarðvík í 10. umferð Lengjudeildar karla í kvöld en lokatölur urðu 5-2 á Rafholts-vellinum í Njarðvík. Liam Daði Jeffs, sonur Ian Jeffs, gerði þá sigurmark Þróttara í 1-0 sigri á Grindavík.

Njarðvíkingar höfðu aðeins tapað einum deildarleik áður en liðið mætti Aftureldingu.

Hrannar Snær Magnússon og Elmar Kári Enesson Cogic komu Aftureldingu í 2-0 á innan við tuttugu mínútum.

Mark Hrannars kom á 4. mínútu. Hann fékk boltann á vinstri vængnum, skar sig inn í átt að teignum og skoraði með góðu skoti áður en Elmar Kári gerði annað markið úr vítaspyrnu eftir að Sigurjón Már Markússon braut á Elmari í teignum.

Á 35. mínútu komust Njarðvíkingar inn í leikinn og það eftir fimmtu hornspyrnu heimamanna. Oumar Diouck kom boltanum inn í teiginn og var það Tómas Bjarki Jónsson sem náði að koma honum í netið.

Þrjú mörk í fyrri hálfleiknum en það voru Njarðvíkingar sem fóru að gera sig líklega þegar leið á síðari hálfleikinn.

Amin Cosic lyfti boltanum yfir markið úr dauðafæri á 64. mínútu en aðeins sex mínútum seinna kom jöfnunarmarkið. Það gerði Diouck.

Kaj Leo í Bartalstovu kom með sendingu upp í vindinn og datt hann fyrir Diouck sem lagði hann á vinstri fótinn og kom honum framhjá Arnari Daða í markinu.

Afturelding tók völdin aftur. Hrannar Snær fór framhjá Arnari Helga, lagði boltann út í teiginn á Aron Jóhannsson sem smellti boltanum í slá og inn.

Fimm mínútum síðar komust gestirnir í þægilega stöðu er Elmar Kári skoraði fjórða mark liðsins beint úr aukaspyrnu. Boltinn í gegnum vegginn og í netið.

Sævar Atli Hugason rak síðan smiðshöggið á 87. mínútu er hann fékk boltann á vinstri vængnum og lét vaða fyrir utan. Boltinn lak í netið.

Undir lok leiks sauð allt upp úr er varamaðurinn Erlendur Guðnason fór í groddaralega tæklingu. Erlendur fékk að líta rauða spjaldið í liði Njarðvíkur og sömuleiðis liðsfélagi hans, Joao Ananias, fyrir hrindingar. Njarðvíkingar kláruðu því leikinn tveimur mönnum færri.

Lítið markvert gerðist eftir það og lokatölur 5-2, Aftureldingu í vil.

Afturelding með 14 stig í 4. sæti en Njarðvík í 2. sæti með 20 stig.

18 ára hetja Þróttara

Þróttarar náðu að spyrna sér frá botninum með því að leggja Grindavík að velli, 1-0, á AVIS-vellinum í Laugardal.

Heimamenn voru ívið sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum. Hlynur Þórhallsson átti fínasta skalla sem Aron Dagur BIrnuson varði í marki Grindvíkinga, en það var nóg að gera hjá honum í byrjun leiks.

SIgurmark leiksins kom ekki fyrr en undir lok hálfleiksins en það gerði hinn 18 ára gamli Liam Daði Jeffs. Grindvíkingar töpuðu boltanum klaufalega frá sér og var það Liam Daði sem tók hann, fór með hann upp völlinn og hamraði honum síðan fyrir utan teig og í netið.

Fyrsta meistaraflokksmark Liams. Hann er sonur Ian Jeffs, fyrrum þjálfara Þróttar.

Það var fremur rólegt yfir þessu stærstan hluta síðari hálfleiksins en á lokamínútunum fékk Símon Logi Thasaphong tvö góð færi til að jafna leikinn. Fyrst átti hann skalla í utanverða stöngina og stuttu síðar varði Þórhallur Ísak, markvörður Þróttara, frábærlega frá honum og sá til þess að Þróttarar kæmu sér úr botnsætinu.

Þróttur er nú með 9 stig í 11. sæti deildarinnar en Grindavík í 5. sæti með 13 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Njarðvík 2 - 5 Afturelding
0-1 Hrannar Snær Magnússon ('4 )
0-2 Elmar Kári Enesson Cogic ('16 , víti)
1-2 Tómas Bjarki Jónsson ('35 )
2-2 Oumar Diouck ('70 )
2-3 Aron Jóhannsson ('77 )
2-4 Elmar Kári Enesson Cogic ('82 )
2-5 Sævar Atli Hugason ('87 )
Rautt spjald: ,Joao Ananias Jordao Junior, Njarðvík ('92)Erlendur Guðnason, Njarðvík ('92) Lestu um leikinn

Þróttur R. 1 - 0 Grindavík
1-0 Liam Daði Jeffs ('44 )
Lestu um leikinn
Lengjudeild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Fjölnir 10 7 2 1 21 - 12 +9 23
2.    Njarðvík 10 6 2 2 22 - 14 +8 20
3.    ÍBV 10 4 4 2 22 - 13 +9 16
4.    Afturelding 10 4 2 4 16 - 19 -3 14
5.    Grindavík 9 3 4 2 17 - 14 +3 13
6.    ÍR 10 3 4 3 13 - 17 -4 13
7.    Leiknir R. 10 4 0 6 13 - 18 -5 12
8.    Keflavík 10 2 5 3 14 - 13 +1 11
9.    Þór 9 2 4 3 13 - 15 -2 10
10.    Grótta 10 2 4 4 16 - 23 -7 10
11.    Þróttur R. 10 2 3 5 14 - 16 -2 9
12.    Dalvík/Reynir 10 1 4 5 11 - 18 -7 7
Athugasemdir
banner
banner