Gordon vill fara til Liverpool - Chelsea vill Williams sem vill fara til Barcelona - Hjulmand orðaður við Burnley
   sun 30. júní 2024 20:52
Brynjar Ingi Erluson
EM: Spánverjar flugu inn í 8-liða úrslit
Spánverjar eru komnir áfram
Spánverjar eru komnir áfram
Mynd: EPA
Nico Williams var frábær í leiknum
Nico Williams var frábær í leiknum
Mynd: EPA
Spánn 4 - 1 Georgía
0-1 Robin Le Normand ('18 , sjálfsmark)
1-1 Rodri ('39 )
2-1 Fabian Ruiz ('51 )
3-1 Nico Williams ('75 )
4-1 Dani Olmo ('83 )

Spánverjar eru komnir með farseðilinn í 8-liða úrslit Evrópumótsins eftir að hafa unnið Georgíu, 4-1, í Köln.

Georgíumenn höfðu boðið upp á ágætis skemmtun á mótinu en liðið komst áfram í 16-liða úrslit með því að vinna Portúgal, 2-0, í lokaumferð riðlakeppninnar.

Á meðan hafði spænska liðið verið líklega það skemmtilegasta til þessa, en það lenti óvænt undir á 18. mínútu.

Otar Kakabadze fékk boltann á hægri vængnum, kom honum inn í teiginn en það vildi ekki betur en svo að boltinn fór í Robin Le Normand og í eigið net.

Óvænt staða sem Georgíumenn voru komnir í og gátu þeir svo sannarlega gert stöðuna betri næstu mínúturnar en fóru oft illa með góðar skyndisóknir.

Spánverjar komu til baka á 39. mínútu. Nico Williams fann Rodri sem jafnaði metin með góðu skoti. Staðan 1-1 í hálfleik.

Kvicha Kvaratskhelia var ekki langt frá því að koma Georgíu aftur yfir í byrjun síðari hálfleiks. Hann fékk boltann við miðsvæðið, horfði upp og sá Unai Simon standa framarlega í markinu. Napoli-maðurinn reyndi skotið, en boltinn rétt framhjá.

Stuttu síðar komust Spánverjar yfir. Giorgi Mamardashvili, markvörður Georgíu, varði aukaspyrnu Lamine Yamal, en þessi 16 ára gamli sóknarmaður fékk boltann aftur stuttu síðar, kom boltanum fyrir á Fabian Ruiz sem skoraði. Annað mark hans á mótinu.

Áfram héldu Spánverjar að sækja og bætti Nico Williams við þriðja markinu þegar fimmtán mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Williams fékk boltann vinstra megin, lék á varnarmann og þrumaði boltanum upp í þaknetið. Frábær afgreiðsla hjá þessum eftirsótta leikmanni.

Lamine Yamal fékk fullt af sénsum til að skora sitt fyrsta mark á stórmóti. Hann kom sér margoft í góðar stöður en þetta var bara ekki hans augnablik fyrir framan markið.

Sjö mínútum fyrir leikslok gerði Dani Olmo endanlega út um leikinn eftir sendingu Mikel Oyarzabal.

Ævintýri Georgíu er lokið en Spánn er komið í 8-liða úrslit og mætir þar gestgjöfum Þýskalands.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner