Gordon vill fara til Liverpool - Chelsea vill Williams sem vill fara til Barcelona - Hjulmand orðaður við Burnley
   sun 30. júní 2024 20:08
Brynjar Ingi Erluson
Southgate: Þetta er ástæðan fyrir því að maður gerir ekki breytingar
Gareth Southgate
Gareth Southgate
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, var gríðarlega ánægður með andann og hugrekkið í 2-1 sigrinum á Slóvakíu í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í kvöld.

Enska liðið var ósannfærandi stærstan hluta leiksins. Það lenti undir og átti í miklum vandræðum með að koma sér aftur inn í leikinn.

Á síðustu mínútu uppbótartíma lifnaði yfir öllu þegar Jude Bellingham jafnaði metin með stórkostlegri bakfallsspyrnu og síðan gerði Harry Kane út um leikinn með sigurmarki í byrjun framlengingar.

„Ég hafði einhverja tilfinningu fyrir því að leikurinn væri ekki dauður og ég veit að hljómar fáránlega. Við héldum áfram að keyra á þetta. Í lokin þá var það markið þar sem við köstuðum inn í teiginn sem skilaði markinu.“

„Þegar fimmtán mínútur eru eftir þá veltir þú því fyrir þér hvort Jude sé búinn á því. Hann og Harry Kane framkvæmdu þessi augnablik og þetta er ástæðan fyrir því að þú gerir ekki breytingar þegar fólk er að kalla eftir fleiri breytingum. Við vorum með nóg af sóknarsinnuðum leikmönnum á vellinum,“
sagði Southgate, sem var þarna að vísa í áköll stuðningsmanna um fleiri breytingar.

Bukayo Saka var færður í vinstri bakvörðinn þegar leið á leikinn, honum ekki til mikillar ánægju.

„Okkur fannst Bukayo gefa okkur fleiri möguleika í sóknina með því að hafa hann í vinstri bakverði. Þetta var góður kostur fyrir okkur að hafa, en ég verð að segja að hugrekki leikmanna var frábært í kvöld.“

Southgate mun stýra 100. leik sínum sem þjálfari enska landsliðsins þegar það mætir Sviss í 8-liða úrslitum, en sá áfangi skiptir hann engu máli.

„Það er ekki það mikilvæga í þessu. Við komum ekki hingað til að komast í 8-liða heldur til að komast í gegnum kvöld eins og þetta með þessum frábæra karakter. Núna mætum við Sviss sem hefur verið rosalega öflugt á þessu móti. Við fáum nokkra daga í endurheimt og svo er það að gera okkur klára fyrir þann leik,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner