„Tilfinningin er ótrúlega góð. Ég get ekki lýst þessu," sagði Liam Daði Jeffs, sóknarmaður Þróttar, við Fótbolta.net eftir 1-0 sigur Þróttar gegn Grindavík í Lengjudeildinni.
Liam Daði, sem er fæddur árið 2006, kom óvænt inn í byrjunarliðið og skoraði eina mark leiksins. Þetta var hans fyrsti leikur í sumar og fyrsta markið.
Liam Daði, sem er fæddur árið 2006, kom óvænt inn í byrjunarliðið og skoraði eina mark leiksins. Þetta var hans fyrsti leikur í sumar og fyrsta markið.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 1 - 0 Grindavík
„Ég sagði við strákana að ég fór í lúmskt 'blackout' í horninu þegar ég fagnaði. Þetta var geggjuð tilfinning."
„Steinar vinnur boltann mjög vel, ég tek boltann og negli honum á markið. Grasið var blautt og ég læt hann skoppa. Gott mark. Ég er bara með markanef, skilurðu? Maður horfir bara á markið. Ég vil gera vel fyrir félagið og skora mörk."
Liam hefur verið að skora mikið með 2. flokki í sumar og fékk loks tækifærið með meistaraflokki í kvöld.
„Ég þakka traustið frá Venna og ég hef fengið geggjaðan stuðning frá honum og öllu þjálfarateyminu. Þetta kom mér ekki á óvart. Ég þurfti að sanna mig í 2. flokki og svo fæ ég tækifærin. Það kemur bara allt."
Ian Jeffs er faðir Liam en hann var á sínum leikmannaferli öflugur miðjumaður. Jeffsy, eins og hann er kallaður, er í dag þjálfari Hauka en hann þjálfaði Þrótt þar áður.
„Hann var svolítið nettari á miðjunni og var að dreifa spilinu. Ég er bara að setja mörkin. Það er svolítill munur á okkur en ég fæ þetta frá honum. Það er hægt að segja það," segir Liam en hann hugsaði ekki um að elta pabba sinn í Hauka.
„Ég er samningsbundinn Þrótti og geri allt fyrir þetta félag á meðan ég er samningsbundinn. Ég er stoltur Þróttari, lifi Þróttur!"
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér að ofan en þar leggur Liam áherslu á það að Þróttur verði að halda áfram að vinna leiki.
Athugasemdir