PSG tilbúið að borga metfé fyrir Yamal - Man Utd í viðræðum við De Ligt
   fös 28. júní 2024 14:56
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tjáir sig í fyrsta sinn eftir viðskilnaðinn við KR - „Það eru klárlega vonbrigði"
Gregg Ryder.
Gregg Ryder.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
KR-ingar fagna marki.
KR-ingar fagna marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gregg tók við KR í október síðastliðnum.
Gregg tók við KR í október síðastliðnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gregg Ryder var nýverið sagt upp störfum hjá KR eftir að hafa stýrt liðinu í einungis tæpa átta mánuði. Það þótti nokkuð umdeild ákvörðun hjá KR þegar félagið ákvað að ráða Gregg til starfa fyrir tímabilið. Mikið var rætt um þjálfaraleit KR en félagið fékk ekki þá aðila sem efstir voru á blaði.

Gregg byrjaði afar vel í Vesturbænum en svo fór að halla undan fæti og þegar hann var rekinn, þá var KR fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.

Gregg ræddi aðeins við Fótbolta.net í dag en þetta er í fyrsta sinn sem hann tjáir síðan KR tók ákvörðunin um að breyta um þjálfara.

„Ég vil í fyrsta lagi bara þakka stuðningsmönnunum, starfsfólkinu hjá KR og stjórninni fyrir samstarfið. Ég vil þakka starfsfólkinu og leikmönnunum sérstaklega fyrir alla þá vinnu sem þau lögðu á sig," segir Gregg við Fótbolta.net.

„Það eru klárlega vonbrigði að yfirgefa félagið, en ég skil þær áskoranir og þá pressu sem fylgir fótboltanum. Mér finnst samt tíu leikir of stuttur tími til að innleiða stefnu okkar að fullu."

„Við áttum gott undirbúingstímabil og byrjunin á tímabilinu var góð, en liðið upplifði sinn hluta af einstökum aðstæðum, þar á meðal fjögur rauð spjöld í fyrstu átta leikjunum sem án efa hafði áhrif á frammistöðu okkar. Ég vissi frá upphafi að þetta verkefni myndi taka tíma. Við gerðum verulegar breytingar á leikmannahópnum og uppsetningunni í kringum liðið, með það að markmiði að gera félagið fagmannlegra. Í því fólst meðal annars að hafa æfingar í hádeginu, fjölgun einstaklingsæfinga og ráðningu sjúkraþjálfara í fullt starf. Ég tel að þessar breytingar muni koma félaginu til góðs þegar til lengri tíma er litið."

Gregg óskar KR alls hins besta fyrir framhaldið en fyrrum aðstoðarþjálfari hans, Pálmi Rafn Pálmason, stýrir liðinu líklega út tímabilið.

„Ég óska Pálma og starfsfólki KR alls hins besta. Ég er þess fullviss um að þeir hafi getu til að ná nauðsynlegum árangri. Ég vonast til að sjá KR snúa aftur á topp íslenska fótboltans - þar sem félagið á svo sannarlega heima."

„Ég vil þakka öllum sem hafa sent mér góð skilaboð, ég kann mikið að meta það. Og aftur þakkir til allra sem koma að KR. Ég mun alltaf geyma góðar minningar um tíma minn hér," segir Gregg en óvíst er hvað hann tekur sér næst fyrir hendur og hvort það verði á Íslandi eða annars staðar.
Athugasemdir
banner
banner