PSG tilbúið að borga metfé fyrir Yamal - Man Utd í viðræðum við De Ligt
banner
   fös 28. júní 2024 21:23
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Ástbjörn hetja FH gegn döprum Blikum - Geggjað sigurmark Steinars í sigri ÍA á Val
Ástbjörn Þórðarson gerði eina mark FH-inga gegn Blikum
Ástbjörn Þórðarson gerði eina mark FH-inga gegn Blikum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Blikar hafa séð betri daga
Blikar hafa séð betri daga
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Steinar Þorsteinsson skoraði frábært sigurmark
Steinar Þorsteinsson skoraði frábært sigurmark
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Jónatan Ingi fór meiddur af velli eins og Orri Sigurður Ómarsson
Jónatan Ingi fór meiddur af velli eins og Orri Sigurður Ómarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ástbjörn Þórðarson skoraði eina mark FH í 1-0 sigrinum á Breiðabliki í 12. umferð Bestu deildar karla í kvöld. ÍA vann á meðan frábæran 3-2 sigur á Val á Akranesi.

Það var engin flugeldasýning í Kaplakrika. FH-ingar voru sterkari aðilinn svona fram af fyrri hálfleiks en færin sárafá.

Ástbjörn Þórðarson skoraði sigurmark FH-inga á 42. mínútu leiksins á fjærstönginni. Boltinn kom inn í teiginn og setti Ástbjörn boltann í netið af stuttu færi.

Halldór Árnason, þjálfari Blika, gerði fjórfalda skiptingu þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum og greinilega ekki ánægður með margt í leik liðsins.

Nokkrum mínútum síðar komst Vuk Oskar Dimitrijevic í hörkufæri en skaut boltanum rétt framhjá markinu.

Blikarnir voru ekki að gera sig líklega til afreka í þessum leik og héldu FH-ingar örugglega út og voru meira að segja nálægt því að gera annað markið á lokamínútu uppbótartímans er Bjarni Guðjón Brynjólfsson komst aleinn í gegn, en hann missti boltann of langt frá sér er hann reyndi að sóla Anton Ara Einarsson í markinu sem endaði með því að Anton varði skot hans í horn. Góð frammistaða hjá Hafnfirðingum en afar dapurt hjá Blikunum í dag.

FH er áfram í 5. sæti með 20 stig en Blikar halda 3. sætinu þar sem Valur tapaði fyrir ÍA.

Geggjað sigurmark Steinars í sigri ÍA á Val

ÍA vann magnaðan 3-2 sigur á Val á Akranesi. Steinar Þorsteinsson skoraði sigurmarkið með stórglæsilegu skoti undir lok leiks.

Valsarar byrjuðu leikinn vel en eftir aðeins fjórar mínútur kom upp umdeilt atvik. Jónatan Ingi Jónsson skaut boltanum af Patrick Pedersen og í netið. Helgi Mikael Jónasson, dómari leiksins, dæmdi mark, en ráðfærði sig við Þórð Arnar Árnason, aðstoðardómara, og í kjölfarið dæmdi hann markið af. Pedersen var ekki í rangstöðu þegar hann fékk boltann í sig og Valsmenn rændir marki snemma leiks.

Nokkrum mínútum síðar komust Valsmenn yfir þegar Jakob Franz Pálsson setti boltann inn fyrir á Jónatan Inga sem kláraði færið vel og fékk markið að standa í þetta sinn.

Á 20. mínútu komst Viktor Jónsson í hörkufæri en Frederik Schram varði meistaralega. Mínútu síðar fór Orri Sigurður Ómarsson meiddur af velli og inn kom Elfar Freyr Helgason.

Skagamenn jöfnuðu fimm mínútum síðar. Marko Vardic lék á varnarmann áður en hann skaut að marki. Frederik varði boltann út í teiginn á Jón Gísla Eyland Gíslason sem jafnaði metin.

Valur missti annan mann af velli vegna meiðsla á 29. mínútu en þá fór Jónatan Ingi af velli og kom Adam Ægir Pálsson inn í hans stað.

ÍA komst í forystu á 36. mínútu leiksins. Viktor vann boltann af Jakobi á miðlínunni, ætlaði að senda hann fyrir en það vildi ekki betur en svo að boltinn fór af Bjarna Mark Antonssyni og í eigið net.

Varamennirnir bjuggu til jöfnunarmark snemma í síðari hálfleiknum. Adam Ægir með fyrirgjöfina inn í teiginn og þar var Elfar Freyr mættur á ferðinni og stangaði honum örugglega í netið.

Valsmenn voru sterkari eftir það en bæði lið voru þó að skapa sér færi í leit að sigurmarki.

Steinar Þorsteinsson gerði það sigurmark undir lok leiks. Viktor Jóns lagði boltann út á Steinar sem skaut bananabolta í fjærhornið. Stórkostlegt mark og ansi mikilvægt.

Valur er áfram í 3. sæti með 25 stig á meðan Skagamenn eru áfram í 4. sæti með 20 stig.

Úrslit og markaskorarar:

ÍA 3 - 2 Valur
0-1 Jónatan Ingi Jónsson ('14 )
1-1 Jón Gísli Eyland Gíslason ('26 )
2-1 Bjarni Mark Antonsson ('36 , sjálfsmark)
2-2 Elfar Freyr Helgason ('50 )
3-2 Steinar Þorsteinsson ('90 )
Lestu um leikinn

FH 1 - 0 Breiðablik
1-0 Ástbjörn Þórðarson ('42 )
Lestu um leikinn
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 14 10 3 1 34 - 14 +20 33
2.    Breiðablik 13 8 2 3 27 - 15 +12 26
3.    Valur 13 7 4 2 32 - 18 +14 25
4.    ÍA 12 6 2 4 24 - 17 +7 20
5.    FH 12 6 2 4 22 - 21 +1 20
6.    Fram 13 4 4 5 19 - 20 -1 16
7.    Stjarnan 13 5 1 7 24 - 28 -4 16
8.    KR 12 3 4 5 22 - 24 -2 13
9.    HK 12 4 1 7 15 - 23 -8 13
10.    KA 12 3 2 7 19 - 28 -9 11
11.    Vestri 12 3 1 8 15 - 31 -16 10
12.    Fylkir 12 2 2 8 18 - 32 -14 8
Athugasemdir
banner
banner