Slot opinn fyrir sölu á markvörðum - Isak efstur á lista Arsenal - Meint risatilboð í Yamal - Guler og Charles til Arsenal? - Thuram og Marmoush til...
   þri 29. ágúst 2023 12:04
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ernir sleit krossband - Fékk sjokk þegar niðurstaðan kom
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ernir Bjarnason, leikmaður Keflavíkur, varð fyrir því óláni að slíta krossband í leik liðsins gegn Fram á sunnudag. Hann fór af velli á 56. mínútu og missir út restina af þessu tímabili og sennilega stórum hluta næsta tímabils.

Miðjumaðurinn hefur verið í nokkuð stóru hlutverki í Keflavík í sumar og átt góða spretti.

„Krossbandið er slitið, gerðist í leiknum á móti Fram. Við vorum að sækja, áttum skot á mark og ég fer eitthvað að pressa frákastið. Ég veit ekki hvort að ég hafi hoppað eitthvað og lent illa eða tekið skrefið. Ég heyrði smell í hnénu og datt niður," sagði Ernir.

„Ég hugsaði strax að þetta væri alvarlegt. Ég sagði við Óla Íshólm markvörð Fram að kalla í dómarann og fá börur inn. Ég hef aldrei lent í svona áður, en ég heyrði smellinn og það var svakalegur verkur í smá stund. Ég hugsaði þá það versta."

„Ég horfði á þetta aftur, sést frekar illa finnst mér, en sést að hnéð dettur inn á við í skrefinu."

„Það var gert krossbandatest út á velli. Það kom bara fínt út. Þannig það var sjokk að fá þetta í gær að þetta væri svo krossbandið. Það var eiginlega búið að útiloka þann möguleika þegar ég lá á börunum. Ég var að vonast eftir einhverju aðeins skárra, en ég klára þetta."

„Ég fór í myndatöku strax í gær og fékk niðurstöðurnar. Þar kom í ljós að fremra krossbandið væri slitið og það væri möguleg tognun á liðbandi. Svo er einhver vökvi og blæðingar í hnénu. En allt annað er heilt sem er fínt."

„Ég fer í viðtal til Gauta Laxdals á fimmtudaginn, förum yfir stöðuna. Ég held ég þurfi að ná einhverjum bólgum úr hnénu áður en ég fer í aðgerð. Ég ræði þetta við Gauta."


Ertu heilt yfir búinn að vera laus við alvarleg meiðsli á ferlinum?

„Ég missi varla úr leik, held ég hafi t.d. ekki misst úr leik fyrir Keflavík. Ég er ekki vanur því að meiðast," sagði Ernir.

Ernir er 26 ára miðjumaður sem kom frá Leikni fyrir síðasta tímabil. Hann er uppalinn hjá Breiðabliki og hefur einnig leikið með Fram og Vestra á ferlinum. Á sínum tíma lék hann þrettán unglingalandsleiki.
Innkastið - Listrænn gjörningur
Athugasemdir
banner
banner