lau 29. október 2022 12:00
Ívan Guðjón Baldursson
Sporting krefst 30 milljóna frá Inter vegna meints samningsbrots
Mynd: EPA
Mynd: West Ham

Portúgalska félagið Sporting CP bað Inter um skaðabætur eftir að ítalska félagið hleypti Joao Mario til Benfica á frjálsri sölu síðasta sumar. Inter hafnaði þessari beiðni og er Sporting búið að fara með málið til Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA.


Þegar Inter keypti Joao Mario frá Sporting árið 2016 var sérstakt ákvæði í kaupsamningnum sem sagði að Inter mætti ekki selja leikmanninn aftur til portúgalsks félags.

Inter borgaði rúmar 40 milljónir evra fyrir Joao Mario sem stóðst ekki væntingar og samdi félagið við leikmanninn um starfslok í fyrrasumar. Leikmaðurinn fór svo á frjálsri sölu til Benfica og hefur verið í lykilhlutverki þar.

Steven Zhang, forseti Inter, telur félagið ekki hafa gert neitt rangt og er ekki smeykur um að Sporting muni vinna þetta mál fyrir dóm. Joao Mario var á alltof háum launum miðað við spiltíma og átti aðeins eitt ár eftir af samningnum sínum svo það var ákveðið að semja um starfslok. Það var svo alfarið á ábyrgð leikmannsins að taka næsta skref, Inter hafði ekkert með það að gera. 

Stjórn Sporting gefur lítið fyrir útskýringar Zhang og trúir því að Benfica og Inter hafi verið í viðræðum um Joao Mario. Fjölmiðlar töluðu um félagsskiptin í fyrra og þá var rætt um 7,5 milljónir evra sem mögulegt kaupverð. Sporting telur að félögin hafi að lokum gert ólöglegt samkomulag um að Inter myndi binda enda á samning Joao Mario og hann færi frítt til Benfica. 

Í staðinn átti Inter að fá pening frá Benfica fyrir lánið á kantmanninum Valentino Lazaro, sem skipti frá Inter til Benfica á svipuðum tíma og Joao Mario, en það stenst ekki skoðun vegna þess að Benfica borgaði aðeins eina milljón evra fyrir lánssamninginn. Lazaro er enn samningsbundinn Inter í dag en leikur hjá Torino að láni.

Til gamans má geta að Joao Mario lék með West Ham á láni seinni hluta tímabilsins 2017-18 og skoraði 2 mörk í 13 úrvalsdeildarleikjum.


Athugasemdir
banner
banner
banner