Næstu daga munu leikmenn liða í Landsbankadeildinni gera upp sumarið með því að koma með pistil hér á Fótbolta.net. Marel Baldvinsson leikmaður Breiðabliks gerir sumarið upp í dag.
Fyrir tímabilið settum við Blikar okkur háleit markmið, stefnt var að því að blanda sér í toppbaráttu deildarinnar, eitthvað sem okkur fannst raunhæft miðað við þann mannskap sem við höfðum á að skipa, mikið af ungum og efnilegum strákum í bland við góða erlenda leikmenn og svo gamla reynslubolta(Arnar Grétarsson).
Undirbúningurinn gekk vel og við vorum klárir í slaginn fyrir fyrsta leik Íslandsmótsins þar sem við mættum ÍA uppá skaga. Þar var hart barist og þegar uppi var staðið hafði hvort liðið skorað eitt mark, eitthvað sem fyrirfram hefðu talist ágætis úrslit þar sem skagamönnum var spáð góðu gengi fyrir mót.
Í næstu leikjum á eftir mættum við Þrótti, KR og Grindavík og eftir þessa fjóra fyrstu leiki vorum við með 5 stig. Þetta var ekki alveg byrjunin sem við höfðum óskað okkur en eftir þessa rólegu byrjun náðum við okkur á strik og langt fram eftir sumri spiluðum við virkilega vel þar sem léttleikandi sóknarbolti var í fyrirrúmi og það var gaman að sjá alla ungu strákana í liðinu okkar blómstra. Það voru ekki margir sem vissu hver Jóhann Berg Guðmundsson, Guðmundur Kristánsson, Kristinn Jónsson og Finnur Orri Margeirsson voru fyrir mót en þeir stimpluðu sig inn með stæl, svo voru fleiri sem voru að banka á dyrnar sem eiga eflaust eftir að spila stórt hlutverk í framtíðinni. Svo að óhætt er að segja að framtíðin sé björt í Kópavogi.
Vonbrigði sumarsins eru klárlega tapið fyrir KR í undanúrslitum bikarsins, í leik þar sem við vorum sterkari aðillinn en enduðum á að tapa í vítaspyrnukeppni. Knattspyrna snýst um að skora fleiri mörk en andstæðingurinn en ekki að spila vel úti á vellinum og KR skoraði fleiri mörk en við og á endanum stóðu þeir uppi sem sigurvegarar. Eftir þetta tap náðum við okkur aldrei á strik og enduðum á að tapa fjórum síðustu leikjum okkar í deildinni.
Þegar uppi var staðið enduðum við í 8 stæti deildarinnar, eitthvað sem voru mikil vonbrigði og langt frá því sem við ætluðum okkur.
Þrátt fyrir vonbrigðin var margt jákvætt sem við getum tekið með okkur og er ég viss um að við eigum eftir að koma sterkir til baka. Það er kominn góður grunnur til að byggja á.
Að lokum vil ég óska FH og KR til hamingu með titlana.
Sjá einnig:
Valur Fannar Gíslason (Fylkir)
Bjarki Freyr Guðmundsson (Þróttur R.)
Gunnleifur Gunnleifsson (HK)
Helgi Pétur Magnússon (ÍA)
Athugasemdir