Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   fim 09. maí 2013 13:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2.deild karla: 2. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Raggi Óla
Mynd: Fótbolti.net - Raggi Óla
Mynd: Fótbolti.net - Raggi Óla
Mynd: Fótbolti.net - Raggi Óla
Mynd: Fótbolti.net - Raggi Óla
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í öðru sæti í þessari spá var Afturelding sem fékk 210 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Aftureldingu.

Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. Afturelding 210 stig
3. KV 171 stig
4. ÍR 160 stig
5. Grótta 155 stig
6. Njarðvík 142 stig
7. Höttur 140 stig
8. Reynir S. 101 stig
9. Dalvík/Reynir 75 stig
10. Ægir 71 stig
11. Sindri 69 stig
12. Hamar 39 stig

2. Afturelding
Lokastaða í fyrra: 5. sæti í 2. deild
Afturelding hefur undanfarnin tvö ár átt veika von í lokaumferðinni í 2. deild um að komast upp um deild. Í fyrra tapaði liðið á heimavelli gegn HK í lokaleik og það gerði endanlega út um vonir Aftureldingar um að komast upp. Samkvæmt spá fyrirliða og þjálfara mun Mosfellingum hins vegar takast ætlunarverk sitt á þessu ári en liðinu er spáð öðru sæti í deildinni.

Litlar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Aftureldingar í vetur. Enes Cogic er áfram við stjórnvölinn en hann tók við liðinu af Þorsteini Magnússyni á miðju sumri í fyrra. Varnarmaðurinn reyndi Guðmundur Viðar Mete er kominn frá Haukum og annar varnarmaður, Einar Marteinsson, kemur til Mosfellinga eftir að hafa leikið lykilhlutverk hjá Njarðvík undanfarin tvö ár. Þeir eiga að hjálpa til við að fylla upp í varnarleikinn en Afturelding fékk 46 mörk á sig í 2. deildinni í fyrra sem var þriðji versti árangurinn í deildinni.

Sóknarleikurinn var í betri málum en Afturelding skorað næstflest mörk í 2. deildinni deildinni í fyrra eða 50 talsins. Framherjinn og fyrirliðinn Sævar Freyr Alexandersson er horfinn á braut frá því í fyrra en hann gekk til liðs við Leikni R. og írski varnarmaðurinn John Andrews er hættur. Ásgeir Örn Arnþórsson er einnig farinn aftur í Fylki eftir að hafa verið á láni í Mosfellsbæ síðari hlutann á síðasta tímabili. Paul McShane er aftur á móti ennþá í herbúðum Aftureldingar en þessi reyndi miðjumaður frá Skotlandi gerði nýjan samning við félagið síðastliðið haust eftir að hafa komið frá Grindavík um mitt sumar.

Afturelding endaði með tíu sæti í sínum riðli í B-deild Lengjubikarsins en það dugði ekki til þess að komast áfram í undanúrslitin. Tap gegn Njarðvík og jafntefli gegn HK gerðu út um vonir Mosfellinga þar. Liðið vann hins vegar sannfærandi sigra á bæði Hamar og Sindra.

Eftir að hafa verið í baráttunni undanfarin tvö ár er markmið Mosfellinga að klára dæmið og komast upp í ár. Ef það á að takast þarf liðið að sýna betri stöðugleika en í fyrra þar sem Afturelding vann oft fína sigra en tapaði þess á milli stórt, þar á meðal gegn liðum í neðri hlutanum. Markatala liðsins var einungis fjögur mörk í plús og Mosfellingar þurfa að gera betur í ár ef þeir ætla að fara upp um deild.

Styrkleikar: Liðið skoraði mikið í fyrra og hélt því áfram í vor. Litlar breytingar á hópnum á milli ára. Umgjörðin í kringum liðið er góð og stemningin fyrir fótbolta að aukast í Mosfellsbæ.

Veikleikar: Liðið þarf að sýna meiri stöðugleika. Varnarleikurinn var mikill hausverkur í fyrra þar sem liðið fékk rúmlega tvö mörk á sig að meðaltali í leik. Gengi liðsins á undirbúningstímabilinu var ekkert sérstakt.

Lykilmenn: Guðmundur Viðar Mete, Paul McShane, Wentzel Steinarr Ragnarsson Kamban.


Þjálfarinn: Enes Cogic
,,Við erum með lið sem getur vel farið upp en við höldum okkur á jörðinni, flestar spár rætast ekki. Ég er ánægður með leikmannahópinn, það eru einhver smá meiðsli núna en þegar við erum fullskipaðir getum við gert góða hluti. Liðið er ungt og alveg á hreinu að það á framtíðina fyrir sér. Svo höfum við fengið reynslumenn eins og Guðmund Mete og Paul McShane. Strákarnir eru fúsir til að læra og geta lært af þessum mönnum. Maður getur aldrei bókað sigur fyrirfram gegn neinu liði í þessari deild. Það er einkenni íslenska boltans að allir geta unnið alla og það eru oft miklar sveiflur."

Komnir:
Einar Marteinsson frá Njarðvík
Guðmundur Viðar Mete frá Haukum
Hilmir Ægisson úr Hvíta riddaranum

Farnir:
Ásgeir Örn Arnþórsson í Fylki
John Andrews hættur
Snorri Helgason hættur
Sævar Freyr Alexandersson í Leikni R.


Þrír fyrstu leikir Aftureldingar:
10. maí: Njarðvík (H)
18. maí: Höttur (H)
24. maí: KV (Ú)
Athugasemdir
banner
banner