Inter mun keppa við Liverpool um Kimmich - Verbruggen á ratsjá Chelsea - Real Madrid fylgist með Wharton
banner
   þri 04. mars 2025 23:18
Brynjar Ingi Erluson
Arteta: Allt getur gerst
Mynd: EPA
Mikel Arteta, stjóri Arsenal, var ánægður fyrir hönd leikmanna félagsins eftir 7-1 stórsigurinn á PSV í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Arsenal hafði ekki skorað í síðustu tveimur keppnisleikjum sínum en stíflan brast í kvöld.

Liðið raðaði inn mörkum gegn sterku liði PSV og er Arsenal nú svo gott sem búið að tryggja sér farseðilinn í 8-liða úrslit

„Ég er afskaplega ánægður fyrir hönd strákanna vegna síðustu tveggja leikja því við höfðum ekki skorað mark og við vitum af látunum sem koma í kringum það,“ sagði Arteta.

Arteta kippti Myles Lewis-Skelly af velli þegar hann var kominn á gult og á hættu í að vera rekinn af velli.

„Ég hef ekki séð seinna brotið en þú vilt ekki taka áhættu þegar þú ert 2-0 yfir á útivelli. Hann er mjög ungur og við verðum að vernda hann.“

PSV fékk vítaspyrnu sem Noa Lang skoraði úr undir lok fyrri hálfleiks en það truflaði ekki Arsenal-menn sem héldu áfram uppteknum hætti í þeim síðari.

„Hreyfiaflið getur breyst og þetta er lið sem hefur lagt það í vana sinn að vinna leiki. Þeir eru með getuna til þess að skapa færi á mörgum augnablikum,. Þú vilt ekki koma þér í stöðu þar sem þeir skora eitt mark og þetta verður að leik.“

Arteta var þá spurður hvort hann hafi fundið fyrir því undanfarið að svona frammistaða væri á leiðinni en hann sagði svo ekki vera.

„Nei, en það er fegurðin við fótboltann. Einbeittu þér að því sem þú ert að gera og gerðu þitt besta. Allt getur gerst,“ sagði Arteta.
Athugasemdir
banner
banner
banner