Darren Eales, framkvæmdastjóri Newcastle United, segir að félagið væri klikkað að íhuga það að selja sænska framherjann Alexander Isak í sumar.
Ensku miðlarnir segja að Isak sé falur í sumar en þó aðeins fyrir 120 milljónir punda eða meira.
Öll stórliðin á Englandi munu horfa til hans í sumarglugganum en miðað við orð framkvæmdastjórans eru ekki miklar likur á að Isak sé á förum.
Isak er með 19 mörk i ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu en aðeins Mohamed Salah og Erling Braut Haaland hafa skorað fleiri en hann í ár.
„Við erum með þá ósk og þrá að halda öllum lykilmönnunum áfram. Þeir eru allir samningsbundnir til langs tíma, þannig frá því sjónarhorni höfum við engan áhuga á að leyfa öllum þessum leikmönnum að fara og það er engin pressa á að gera það.“
„Eigendur félagsins eru metnaðarfullir og vilja þeir aðeins það besta fyrir félagið. Frá því sjónarmiði væri alger klikkun fyrir okkur að íhuga það,“ sagði Eales.
Talaði hann einnig um að hann og margir hjá félaginu væru pirraðir yfir því að Isak sé orðaður við stærri félög og að markmið félagsins væri að vera álitið topplið á Englandi.
„Þegar við hugsum um vöxt Newcastle þá erum við með metnað til að verða að toppliði. Það er smá pirringur yfir þessu því það er eins og það sé litið á okkur sem félag í flokknum fyrir neðan þau.“
„Við erum lið sem vill vera í efri hlutanum. Við viljum halda bestu mönnunum hér og ef ég á að vera hreinskilinn þá sýnir öll þessi umræða um Isak hversu mikils metinn hann er því það er alltaf verið að tala um hann,“ sagði Eales í lokin.
Athugasemdir