Liverpool hafnaði tilboði í Nunez og hefur áhuga á Tzimas - Chelsea hefur sett verðmiða á Nkunku - Rashford vill fara til Barcelona
   fös 06. ágúst 2021 15:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Segir margt að þeir fara í kerfi sem þeir hafa ekki farið í áður"
Aberdeen fór í þriggja miðvarða kerfi.
Aberdeen fór í þriggja miðvarða kerfi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frábær spilamennska í fyrri hálfleik
Frábær spilamennska í fyrri hálfleik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ánægður með sína menn
Ánægður með sína menn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fer allt í reynslubankann.
Fer allt í reynslubankann.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik mætti Aberdeen í Sambandsdeildinni í gær. Sá leikur var fyrri leikur liðanna í 3. umferð forkeppninnar, leikið var á Laugardalsvelli.

Aberdeen bar sigur úr býtum, 2-3. Fyrstu tvö mörk Aberdeen komu snemma í leiknum og bæði eftir að gestirnir tóku hornspyrnu. Fótbolti.net heyrði í þjálfara Breiðabliks í dag og spurði hann út í þessi fyrstu tvö mörk.

„Það eru bara ákveðnir hlutir sem gerast og eitthvað fyrir okkur til að læra af. Þjálfari þeirra sagði eftir leikinn að þeir hefðu kokkað upp fyrstu hornspyrnuna á leikdegi. Við hefðum getað gert betur í því atriði, vorum heldur auðveldlega stignir út. Seinna hornið er bara sparkað upp í loftið og vonað það besta. Eftir það dílum við ágætlega við þá í hornunum og þetta fer allt í reynslubankann," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson.

Segir margt að þeir fara í kerfi sem þeir hafa ekki farið í áður
Aberdeen gerði þrefalda breytingu í hálfleik og breytti úr 4-4-2 í þriggja miðvarða kerfi. Náðu gestirnir betri tökum á leiknum með því að gera þessar breytingar?

„Þeir höfðu enga stjórn á leiknum í fyrri hálfleik en náðu að stoppa í götin og mér fannst vanta aðeins hjá okkur að bregðast við því. Mér fannst vanta aðeins upp á ógnunina í seinni hálfleik. Það segir margt að þeir breyta um kerfi í hálfleik og fara í kerfi sem þeir hafa ekki farið í áður. Við gerum ráð fyrir að þeir komi aftur í því kerfi næsta fimmtudag og verðum undirbúnir því."

Endurstilltu sig og svöruðu vel
Blikar spiluðu virkilega vel, sérstaklega í fyrri hálfleik. Ertu ánægður með þitt lið?

„Já, ég var mjög ánægður með frammistöðuna, ánægður með frammistöðuna í heild sinni. Það hefðu ekki allir jafnað sig á því að fá á sig tvö mörk þetta snemma í leiknum. Við svöruðum þessu vel og náðum að endurstilla okkur. Spilamennskan var frábær í fyrri hálfleik, mér fannst við svo fá fullt af möguleikum í seinni hálfleik, vorum ekki í erfiðleikum með að spila í gegnum fyrstu pressuna þeirra en svo vantaði aðeins upp á ógnunina á síðasta þriðjungi."

„Það er alveg ljóst að leikstíll þeirra gerir það að verkum að við náum eiginlega aldrei að pressa þá hátt uppi á vellinum eins og við erum góðir í. Það eina sem við gátum gert var að pressa þá í löngu sendingunum. Þeir eru fagmenn, atvinnumenn og með meistaragráðu í að vinna annan bolta, það var alltaf að fara verða áskorun fyrir okkur. Mér fannst við samt díla býsna vel við það og ég er mjög ánægður með með mína menn. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist úti í seinni leiknum."


Verða klárir á mánudaginn og aftur á fimmtudaginn
Það var tilfinningin úr stúkunni að Blikarnir væru orðnir þreyttir í seinni hálfleiknum. Þarftu að hugsa um að hvíla einhverja leikmenn gegn Stjörnunni á mánudaginn?

„Nei, við róterum kannski eitthvað aðeins liðinu, Oliver er t.d. í banni. Við keyrum áfram á fullu gasi. Völlurinn var svolítið loðinn og þungur og þar fram eftir götunum. Við verðum klárir á mánudaginn og svo aftur á fimmtudaginn. Við erum búnir að æfa fyrir þetta og bjuggum vonandi til góðan grunn og það kemur í ljós núna á næstu viku hversu góður grunnurinn var."

Skipti engu máli hvort að Stjörnu-leikurinn er á sunnudegi eða mánudegi
Leikurinn gegn Aberdeen er á fimmtudag og leikurinn gegn Stjörnunni er á mánudag. Hefði verið betra að hafa leikinn gegn Stjörnunni settan á sunnudag upp á ferðalagið til Skotlands að gera?

„Ég held að það skipti engu máli. Það þarf líka hugsa út í hvað er mikilvægt í þessu. Það er ekkert sem segir að það sé betra að spila gegn Stjörnunni með færri dögum í undirbúningi. Það verður mjög erfiður leikur og það gæti allt eins verið gott fyrir okkur að fá einn aukadag í hvíld fyrir þann leik frekar en á móti Aberdeen. Það er oft auðveldara að trekkja sig upp í svona 'one-off' Evrópuleiki."

„Ég held að það skipti engu máli hvort að Stjörnu-leikurinn er á sunnudegi eða mánudegi, hann er jafn erfiður hvort sem er. Leikurinn gegn Aberdeen verður jafn erfiður hvort sem þú færð þrjá eða fjóra daga til að jafna þig. Við þurfum bara að passa að við séum klárir á mánudaginn og koma í leikinn að þeim krafti sem hefur einkennt liðið í undanförnum leikjum. Svo höfum við áhyggjur af hinum leiknum þegar leikurinn gegn Stjörnunni er búinn,"
sagði Óskar Hrafn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner