Víkingur staðfesti í morgun að félagið sé að selja Gísla Gottskálk Þórðarson til pólska liðsins Lech Poznan. Á sama tíma staðfesti pólska félagið einnig að Gísli Gottskálk væri að koma.
Félögin staðfestu einnig að Gísli muni skrifa undir fjögurra og hálfs árs samning við pólska félagið að lokinni læknisskoðun ytra.
Gísli Gottskálk verður einn dýrasti leikmaður sem hefur verið seldur frá íslensku félagsliði við félagaskiptin en sá dýrasti er líklega Bjarni Guðjónsson sem Newcastle keypti frá ÍA á 500 þúsund pund árið 1997.
Í síðustu viku var fjallað um það í pólskum fjölmiðlum að Lech Poznan og Rakow hefðu gert tilboð í Gísla en þeim var báðum hafnað. Lech gafst ekki upp en í þeim sömu fjölmiðlum var talað um að Víkingur vildi fá 500-600 þúsund evrur, 72-86 milljónir íslenskra króna, fyrir leikmanninn auk bónusgreiðslna eftir ákvæðum og greiðslu fyrir næstu sölu.
Gísli Gottskálk er tvítugur og hefur verið frábær í Sambandsdeildinni og var einn besti leikmaður Bestu deildarinnar á tímabilinu en Fótbolti.net valdi hann efnilegasta leikmann deildarinnar.
Víkingur hefur samþykkt kauptilboð pólska úrvalsdeildarliðsins Lech Poznan í Gísla Gottskálk Þórðarson. Gísli mun skrifa undir 4 og hálfs árs samning við Lech Poznan að lokinni læknisskoðun og undirritun samnings. pic.twitter.com/Y3Cr39KCoL
— Víkingur (@vikingurfc) January 7, 2025
Athugasemdir