Brynjar Björn Gunnarsson er uppalinn KRingur, lék með liðinu áður en hann fór í atvinnumennsku og kom svo heim og lauk leikmannaferli sínum hjá félaginu. Hann ræddi stöðu liðsins í Tilþrifunum á Stöð 2 Sport í kvöld eftir stórtap liðsins gegn Val.
Lestu um leikinn: Valur 5 - 0 KR
„Þetta leit ágætlega út í vetur og í fyrstu tveimur leikjunum í mótinu. Þeir eru of léttir varnarlega, það eru meiðsli og þeir hafa misst menn síðustu 2-3 ár sem hafa verið mikilvægir fyrir þá. Í dag mættu þeir bara sterkara liði," sagði Brynjar Björn.
Þáttarstjórnandinn Rikki G benti á að margir stórir karakterar séu farnir frá félaginu. Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Pálmi Rafn Pálmason, Kjartan Henry Finnbogason og Beitir Ólafsson eru farnir annað.
„Þeir hafa ekki fengið þessar týpur. Fyrir utan að þeir séu leiðtogar, reyndir og góðir leikmenn þá er þetta í gegnum hrygginn, markmaður, hafsentar, miðjumenn og senter. Maður byggir það fyrst og svo byggir maður utan á það. Öll þessi nöfn sem þú nefndir er klárlega missir fyrir KR og ungu strákana sem verið er að gefa tækifæri," sagði Byrnjar Björn.
Brynjar telur að Rúnar verði áfram með liðið.
„Það væru sennilega allir þjálfarar undir pressu. Ég sé ekki KR fara í þær breytingar núna. Þeir fengu Ole inn frá Noregi til að styðja við Rúnar og þjálfarateymið," sagði Brynjar Björn.
„Það hugsa ég ekki (Að Rúnar hætti sjálfur). Leikmenn verða líka að taka smá ábyrgð, alltof margir skrefinu á eftir, hvort sem það er í pressu eða hlaupa til baka. Rúnar og hans þjálfarateymi þarf að sjálfsögðu líka að taka ábyrgð. Þeir þurfa kannski að endurmeta stöðuna, voru kannski ekki alveg tilbúnir í allar þessar breytingar sem þeir eru búnir að gera síðustu 2-3 ár."
Í skýrslunni eftir leik skrifar Guðmundur Aðalsteinn: „Hefur einhvern tímann verið heitara undir Rúnari Kristinssyni en akkúrat núna?"
Sjá einnig:
Twitter - Þarf að draga einhvern til ábyrgðar
Rúnar um stöðu sína: Ekki mitt að taka ákvarðanir í þessu
KR einungis einu sinni tapað stærra