Það voru nokkrir Íslendingar sem komu við sögu í evrópska boltanum í dag og átti Alfreð Finnbogason stoðsendingu í jafnteflisleik Lyngby í Danmörku.
Lyngby krækti í sitt fimmta stig á tímabilinu, fimm jafntefli eftir tólf umferðir, á heimavelli gegn toppbaráttuliði Viborg.
Leikurinn var nokkuð jafn og voru bæði mörkin skoruð snemma. Viborg tók forystuna snemma og jöfnuðu lærisveinar Freys Alexanderssonar á elleftu mínútu. Alfreð Finnbogason lagði jöfnunarmarkið upp fyrir Rezan Corlu.
Lyngby var næstum búið að stela sigrinum í síðari hálfleik en mark Frederik Gytkjær var tekið af með VAR vegna rangstöðu.
Lærisveinar Freys þurfa að fara að snúa slæmri byrjun við vilji þeir halda sér í deild þeirra bestu. Sævar Atli Magnússon var ónotaður varamaður í liði Lyngby.
Lyngby 1 - 1 Viborg
0-1 J. Grot ('8)
1-1 R. Corlu ('11)
Í Hollandi lék Kristian Nökkvi Hlynsson allan leikinn er Jong Ajax tapaði fyrir Helmond í B-deildinni.
Ajax er með tólf stig eftir tíu umferðir og sinnir Kristian Nökkvi lykilhlutverki á miðjunni. Kristian hefur verið að gera flotta hluti en næsta skref, sem leiðir upp í aðalliðið hjá Ajax, er þó ansi stórt og erfitt.-
Að lokum var Birkir Bjarnason ónotaður varamaður í 1-1 jafntefli Adana Demirspor á útivelli gegn Gaziantep í tyrkneska boltanum.
Adana er þar á toppinum með 18 stig eftir 9 umferðir en næstu lið fyrir neðan eiga leiki til góða.
Jong Ajax 0 - 1 Helmond
Gaziantep 1 - 1 Adana Demirspor