Tammy Abraham hefur verið að gera fína hluti undir stjórn Jose Mourinho hjá Roma eftir félagaskipti sín frá Chelsea.
Roma borgaði 40 milljónir evra fyrir Abraham í fyrra og fékk Chelsea að halda endurkaupsrétt á honum sem virkjast þó ekki fyrr en næsta sumar.
Endurkaupsrétturinn nemur 80 milljónum evra, eða tvöfaldri upphæð sem Roma borgaði.
Fjölmiðlar á Englandi og Ítalíu segja Graham Potter og starfsteymi hans hafa mikinn áhuga á að fá Abraham aftur til Chelsea og telja að hann geti leyst vandamálin í sóknarleik liðsins. Chelsea hefur vantað alvöru sóknarmann undanfarin ár eftir að hvorki Timo Werner né Romelu Lukaku stóðust væntingarnar sem til þeirra voru gerðar.
„Ég er mjög ánægður með lífið í Róm og einbeittur að því sem ég er að gera hérna. Liðið er gott, stjórinn er góður, borgin, stuðningsmennirnir. Allt er gott og ég er hamingjusamur. Bara Guð veit hvað gerist í framtíðinni," sagði Abraham sem er samningsbundinn Roma til 2026.
Abraham hefur skorað 29 mörk í 63 leikjum hjá Roma.