Luis Suarez er einn af betri vinum Lionel Messi eftir að þeir voru samherjar hjá Barcelona í sex ár.
Messi leikur í dag fyrir franska stórveldið PSG en Suarez er hjá Nacional í heimalandinu, félaginu sem hann hóf ferilinn með.
„Leo er mjög mikilvægur vinur fyrir mig. Við áttum frábæra tíma saman hjá Barcelona þar sem við fögnuðum mörkum hjá hvor öðrum alveg jafn dátt og okkar eigin," sagði Suarez.
„Messi og Neymar létu mig vinna Gullskóinn eitt tímabilið, Leo leyfði mér að taka vítaspyrnur og þeir lögðu mikið upp fyrir mig. Það var enginn okkar sem sýndi alltof mikið egó, við vorum allir ánægðir og restin af liðinu hljóp fyrir okkur og vann skítavinnuna því þeir áttuðu sig á hvað við gátum gert."
Neymar var þó aðeins partur af sóknarlínunni ógnarsterku í þrjú ár frá komu Suarez, en hann hélt til PSG sumarið 2017 og er núna samherji Messi þar.
„Það var sárt að missa Neymar, við þjáðumst mikið. Þetta voru erfiðir tímar fyrir félagið eftir tapið gegn FC Bayern í Meistaradeildinni. Þeir létu mig æfa utan hóps og þeir létu Leo æfa utan hóps. Ég skoraði aldrei minna en 25 mörk á tímabili hjá Barcelona. Þetta særði mig en þetta særði Leo meira, ég hef aldrei séð hann gráta eins og hann grét á þessum tíma. Þetta var ömurlegt og ég skildi aldrei hvers vegna þetta þurfti að vera svona. Sem betur fer þá fann ég hamingjuna aftur hjá Atletico Madrid."
Suarez og liðsfélagar hans í úrúgvæska landsliðinu fara á HM í Katar rétt eins og Messi og félagar í Argentínu.
„Vonandi komumst við báðir alla leið í úrslit, það væri frábært fyrir suður-amerískan fótbolta."