Mikel Arteta er stoltur af viðsnúningnum sem hefur átt sér stað undir hans stjórn hjá Arsenal.
Liðið er óvænt á toppi ensku úrvalsdeildarinnar sem stendur en getur misst toppsætið til Englandsmeistara Manchester City um helgina.
Arsenal tekur á móti Liverpool í risaslag á morgun og þarf sigur til að senda skýr skilaboð í toppbaráttunni og missa ekki toppsætið.
„Ég er mjög ánægður og stoltur af viðsnúningnum sem hefur átt sér stað innan félagsins. Við erum ekki ennþá komnir á staðinn sem við viljum vera á, en við erum á góðri leið," sagði Arteta á fréttamannafundi fyrir helgina.
„Árangur er mældur í titlum og við erum ekki búnir að vinna svoleiðis. Það er samt mikilvægt að skilja og sjá hversu langa leið við erum komnir eftir að hafa tekið við brotnu félagi."
Arteta hefur verið við stjórnvölinn hjá Arsenal í tæp þrjú ár og er samningsbundinn félaginu næstu þrjú árin. Arsenal hefur ekki unnið gegn Liverpool síðan 2020 og tapaði innbyrðisviðureignum liðanna á síðustu leiktíð.
„Þetta er gríðarlega spennandi leikur gegn einum af erfiðustu andstæðingunum í þessari deild og víðar. Þetta verður mjög erfiður leikur þar sem ekkert mun duga nema okkar allra besta. Við verðum að sanna fyrir öllum að við erum búnir að bæta okkur frá því í fyrra og getum keppt við þetta lið."