Þremur leikjum var að ljúka í Bestu deild karla og gætu tveir þeirra reynst afar mikilvægir.
Breiðablik er komið með aðra hönd á titilinn eftir sigur á útivelli gegn KA í toppbaráttuslag. Kristinn Steindórsson skoraði eftir hornspyrnu í fyrri hálfleik og voru Blikar með yfirhöndina en lokamínúturnar reyndust gífurlega dramatískar.
Heimamenn í KA fengu vítaspyrnu eftir steindauðan seinni hálfleik og skoraði Hallgrímur Mar Steingrímsson af vítapunktinum á 85. mínútu. Það tók Blika þó ekki nema tvær mínútur að endurheimta forystuna, Jason Daði Svanþórsson svaraði með marki eftir undirbúning frá Ísaki Snæ Þorvaldssyni.
KA komst nálægt því að jafna í uppbótartíma en Rodri mistókst að stýra boltanum á markið af stuttu færi. Niðurstaðan 1-2 sigur Blika sem eru nálægt því að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.
Breiðablik er með 57 stig eftir 24 umferðir og KA með 46 stig, rétt eins og ríkjandi Íslandsmeistarar Víkings R. sem eiga leik til góða.
KA 1 - 2 Breiðablik
0-1 Kristinn Steindórsson ('34)
1-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('85, víti)
1-2 Jason Daði Svanþórsson ('87)
ÍA er þá komið í betri stöðu í fallbaráttunni eftir frækinn endurkomusigur gegn Fram. Eyþór Aron Wöhler kom Skagamönnum yfir í fyrri hálfleik en gestirnir sneru stöðunni við með mörkum frá Alberti Hafsteinssyni og Guðmundi Magnússyni og leiddu í leikhlé.
Ingi Þór Sigurðsson jafnaði eftir skyndisókn í kjölfar hornspyrnu snemma í síðari hálfleik og einkenndist síðari hálfleikurinn af baráttu og miðjumoði. Það var hornspyrna á 77. mínútu sem réði úrslitum, Kaj Leo í Bartalsstovu setti boltann inn á teig þar sem Viktor Jónsson skallaði boltann í slána. Þaðan fór boltinn til Eyþórs Arons sem skallaði hann yfir línuna.
Þetta reyndist sigurmarkið og eru Skagamenn á lífi í fallbaráttunni, tveimur stigum frá öruggu sæti.
ÍA 3 - 2 Fram
1-0 Eyþór Aron Wöhler ('15)
1-1 Albert Hafsteinsson ('24)
1-2 Guðmundur Magnússon ('37)
2-2 Ingi Þór Sigurðsson ('56)
3-2 Eyþór Aron Wöhler ('77)
Að lokum hafði KR betur í grannaslag gegn Val sem var upp á lítið annað en stoltið þar sem bæði lið sigla lygnan sjó í efri hluta deildarinnar.
Staðan var markalaus fyrstu klukkustundina þrátt fyrir þokkalega yfirburði Vals sem tóku forystuna í gegnum Aron Jóhannsson á 64. mínútu. Aron skoraði með góðu skoti eftir sendingu frá Patrick Pedersen.
Leikurinn hafði verið nokkuð fjörugur til þessa og jókst skemmtanagildið eftir opnunarmarkið. Góð færi á báða bóga en KR-ingar jöfnuðu með marki frá Ægi Jarli Jónassyni.
Valur átti skot í stöng og þegar allt stefndi í 1-1 jafntefli setti Stefan Alexander Ljubicic boltann í netið eftir flotta fyrirgjöf frá Theódóri Elmari Bjarnasyni.
KR 2 - 1 Valur
0-1 Aron Jóhannsson ('64)
1-1 Ægir Jarl Jónasson ('69)
2-1 Stefan Alexander Ljubicic ('93)

L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |

L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |