Ange Postecoglou, virtur knattspyrnustjóri Celtic, býst við að vera án fyrirliðans Callum McGregor næstu mánuðina.
McGregor meiddist á hné í tapi gegn RB Leipzig í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í vikunni og hitti hann sérfræðing í gærmorgun.
„Þetta eru augljóslega ekki skammtímameiðsli en við verðum bara að bíða og sjá. Hann þarf að hitta sérfræðinginn nokkrum sinnum í viðbót áður en við vitum nákvæmlega hversu lengi hann verður frá," sagði Postecoglou.
„Þetta verður mikill missir fyrir okkur, það er ástæða fyrir því að Callum er fyrirliðinn. Hann er stórkostlegur leikmaður sem skiptir miklu máli fyrir okkur bæði utan og innan vallar. Það er einfaldlega ekki hægt að fylla í skarðið fyrir hann. Við lentum líka í þessu á síðustu leiktíð."
McGregor er 29 ára gamall og með 49 landsleiki að baki fyrir skoska landsliðið auk þess að hafa spilað rétt tæpa 400 keppnisleiki fyrir Celtic.
Celtic er á toppi skosku deildarinnar með 21 stig eftir 8 umferðir en á botni Meistaradeildarriðilsins með eitt stig eftir þrjá leiki.
Real Madrid og Shakhtar Donetsk eru einnig í riðlinum ásamt Leipzig.