Liverpool hefur sett sig í samband við fólk sem er nátengt Alexander Isak - Úlfarnir horfa til Jota
   lau 08. október 2022 16:43
Ívan Guðjón Baldursson
Daníel Leó lagði upp í góðum sigri - Annað tap í röð hjá Bolton
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Guðmundur Svansson

Daníel Leó Grétarsson var í byrjunarliði Slask Wroclaw sem rúllaði yfir Gornik Zabrze í pólsku deildinni í dag.


Daníel Leó spilaði sem miðvörður í þriggja manna varnarlínu og lagði annað mark leiksins upp í 4-1 sigri. Wroclaw er þar um miðja deild með 16 stig eftir 12 umferðir.

Það voru nokkrir Íslendingar sem komu við sögu í Svíþjóð þar sem Sirius gerði jafntefli við Degerfors í efstu deild. Aron Bjarnason lék allan leikinn á kantinum hjá Sirius á meðan Óli Valur Ómarsson var ónotaður varamaður.

Sirius er með 27 stig eftir 25 umferðir, fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið þegar fimm leikir eru eftir af deildartímabilinu.

Slask Wroclaw 4 - 1 Gornik Zabrze

Degerfors 0 - 0 Sirius

Í sænsku B-deildinni lék Alex Þór Hauksson allan leikinn í markalausu jafntefli hjá Öster gegn Landskrona. Öster er í flottri stöðu í baráttunni um þriðja sætið, með þriggja stiga forystu á næsta lið þegar fjórar umferðir eru eftir. Þriðja sætið gefur umspilsleik um sæti í efstu deild.

Böðvar Böðvarsson spilaði fyrstu 75 mínúturnar í tapi Trelleborg gegn Skovde AIK. Trelleborg er svo gott sem búið að missa af þriðja sætinu eftir tvo tapleiki í röð og siglir lygnan sjó.

Atli Barkarson kom þá inn af bekknum í markalausu jafntefli SönderjyskE gegn Hobro í B-deild danska boltans. SönderjyskE er þar í þriðja sæti með 24 stig eftir 12 umferðir.

Öster 0 - 0 Landskrona

Skovde AIK 3 - 1 Trelleborg

SönderjyskE 0 - 0 Hobro

Að lokum var Kolbeinn Þórðarson í byrjunarliði Lommel sem tapaði fyrir Deinze í belgísku B-deildinni á meðan Jón Daði Böðvarsson kom inn af bekknum í tapi Bolton í ensku C-deildinni.

Kolbeinn spilaði fyrstu 75 mínúturnar fyrir Lommel sem er með 12 stig eftir 8 umferðir á meðan Jón Daði fékk síðustu 20 í 1-0 tapi gegn Forest Green.

Þetta var annar 1-0 tapleikur Bolton í röð og er liðið með 20 stig eftir 12 umferðir.

Deinze 3 - 0 Lommel

Forest Green 1 - 0 Bolton


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner