Eddie Howe knattspyrnustjóri Newcastle var spurður út í hvort hann hafi haft einhverjar efasemdir þegar honum var boðið starfið hjá félaginu.
Howe var ráðinn skömmu eftir að nýir eigendur tóku yfir eignarhaldi á Newcastle. Opinber fjárfestingasjóður Sádí-Arabíu er nýr eigandi Newcastle og var eigendaskiptunum mótmælt harðlega í ljósi allra þeirra mannréttindabrota sem ríkisstjórnin þar í landi er talin bera ábyrgð á.
Howe segist ekki skipta sér af pólitíkinni á bakvið klúbbinn, hann sé eingöngu einbeittur að fótboltanum. Ef enska úrvalsdeildin gaf grænt ljós á eigendaskiptin þá er það nóg fyrir hann.
„Þegar ég var í viðræðum við félagið heyrði ég allt það neikvæða sem fólk var að segja. Þegar allt kemur til alls þá hef ég trú á ferlinu sem nýir eigendur í ensku úrvalsdeildinni þurfa að ganga í gegnum áður en þeir fá grænt ljós," sagði Howe, einu ári eftir eigendaskiptin.
„Ég einbeiti mér eingöngu að fótboltahliðinni hérna hjá Newcastle. Það borgar sig ekki fyrir mig, félagið eða leikmennina að ég tjái mig um eitthvað annað en fótbolta í fjölmiðlum.
Sádí-Arabarnir borguðu 305 milljónir punda til að kaupa Newcastle og hafa eytt yfir 200 milljónum í nýja leikmenn á borð við Bruno Guimaraes, Kieran Trippier, Sven Botman og Alexander Isak.
Newcastle tekur á móti Brentford í dag sem er endurtekning af fyrsta leik Howe við stjórnvölinn hjá félaginu. Þar gerðu liðin 3-3 jafntefli á St. James' Park í nóvember í fyrra.