Það hefur verið mikið rætt og ritað um Darwin Nunez, úrúgvæskan sóknarmann sem Liverpool keypti á metfé í sumar.
Nunez er stór og stæðilegur en hefur ekki farið nægilega vel af stað hjá sínu nýja félagi. Hann viðurkennir sjálfur að aðlögunarferlið hafi verið erfitt.
Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, hefur miklar mætur á Nunez þrátt fyrir erfiða byrjun. Hann segir að leikmaðurinn sé frábær á æfingum en finni líklegast fyrir pressunni þegar hann mætir á stóra sviðið.
„Ef þið sæjuð hann klára færin á æfingum þá mynduð þið hugsa með ykkur: Guð minn góður!" sagði Klopp.
„Vandinn er að hann finnur svo fyrir pressu eða einhverju slíku. Hann þarf bara að slaka aðeins á, róa sig niður. Þetta er framúrskarandi leikmaður. Hann er að æfa vel og mörkin munu koma ef hann heldur áfram á sömu braut."