Ítalska goðsögnin Alessandro Nesta hefur tjáð sig um norska sóknarmanninn Erling Braut Haaland sem hefur komið sem stormsveipur inn í ensku úrvalsdeildina.
Haaland er búin að skora 19 mörk í fyrstu 12 leikjum sínum hjá Manchester City og segir Nesta að hann hefði getað haft hemil á Haaland á sínum tíma sem leikmaður.
Nesta lék sem miðvörður og gerði garðinn frægan með ógnarsterku liði AC Milan og ítalska landsliðinu.
„Ég gæti haft hemil á Haaland, já, ég hafði hemil á brasilíska Ronaldo og hann var eitthvað annað. Haaland er vissulega mjög góður en hann er ekki af sömu tegund og Ronaldo," sagði Nesta. „Ég hef líka spilað við Messi og Cristiano en þeir eru heldur ekki af sömu tegund og Ronaldo.
„Besta leiðin til að stöðva Haaland er að anda ofan í hálsmálið á honum. Það má aldrei gefa honum neitt pláss og maður þarf alltaf að reyna að vera fyrir honum þegar hann hleypur af stað. Maður má ekki gefa honum pláss því þá er maður dauður."
Kollegi Nesta frá Englandi, Rio Ferdinand, tók í svipaða strengi þegar hann ræddi um bestu leiðina til að stöðva Haaland á dögunum.
„Eitt sem ég hef ekki séð neinn varnarmann gera á tímabilinu er að vera alveg ofan í honum og reyna að koma honum úr jafnvægi. Ég hef séð hann taka spretti frá miðjulínunni þar sem hann er alveg ósnertur. Góðir varnarmenn myndu planta sér í vegi fyrir honum en ég hef ekki séð neinn gera það á tímabilinu. Ég er steinhissa á þessu," sagði Ferdinand í spjallvarpsþættinum sínum á YouTube.
„Svo þegar boltinn er í teignum og Haaland að bíða þá snertir hann enginn. Það er eins og varnarmenn skilji ekki að stundum þarf að snerta sóknarmennina innan vítateigs til að stöðva þá frá því að skora."