Liverpool hefur sett sig í samband við fólk sem er nátengt Alexander Isak - Úlfarnir horfa til Jota
   lau 08. október 2022 13:30
Ívan Guðjón Baldursson
Pjanic um Koeman: Aldrei neinn undirbúningur fyrir næsta leik
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Miralem Pjanic skipti úr Barcelona yfir til Sharjah FC í sumar og fór ekki leynt með skoðun sína á Ronald Koeman í viðtali á dögunum. 


Koeman þjálfaði Pjanic og félaga í Barca í rúmt ár áður en hann var rekinn úr starfi. Pjanic hefur áður tjáð sig um Koeman í fjölmiðlum en í þetta skiptið lét hann allt flakka.

„Ég var mjög hissa á æfingum undir Koeman. Það var engin ákefð, engin taktík, engar hugmyndir. Það var aldrei neinn undirbúningur fyrir næsta leik," sagði Pjanic í viðtali við Cadena SER í gær.

„Hlutirnir breyttust við komu Xavi, æfingarnar urðu eðlilegri og líkari þeim sem ég var vanur hjá Juventus. Núna er mikil ákefð á æfingum og Xavi er mjög kröfuharður þjálfari. Fyrsta sem hann og þjálfarateymið sögðu við okkur væri að núna væri fríið búið og að við þyrftum að hlaupa á 2000 kílómetra hraða."

Pjanic er 32 ára gamall landsliðsmaður Bosníu og er þegar búinn að skora tvö mörk í fyrstu þremur leikjunum sínum hjá sínu nýja félagi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Hinn 59 ára gamli Koeman mun taka við starfi landsliðsþjálfara Hollands eftir að Louis van Gaal lætur af störfum eftir HM í Katar.

Koeman var rekinn frá Barcelona eftir 1-0 tap gegn Rayo Vallecano en hann er fyrsti þjálfarinn til að tapa þremur El Clasico í röð eftir að Patrick O'Connell gerði það við stjórnvölinn hjá Barcelona rétt fyrir seinni heimsstyrjöldina, árið 1936.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner