Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Leicester, hefur miklar mætur á miðjumanni sínum James Maddison.
Hann skilur ekki hvers vegna Maddison sé ekki í enska landsliðshópnum og vonar innilega að leikmaðurinn samþykki nýjan samning hjá Leicester.
Maddison, sem er 25 ára gamall, verður samningslaus sumarið 2024. Leicester hafnaði tveimur tilboðum frá Newcastle í sumar og vonar Rodgers að leikmaðurinn verði áfram.
„Ég veit ekki hvernig samningsviðræðurnar ganga, það er eitthvað sem félagið sér um. Mitt starf snýst um að þjálfa leikmennina og ná því besta úr þeim," sagði Rodgers.
„Það kemur ekki á óvart að það sé áhugi á James en við viljum halda honum. Við segjumst alltaf vilja halda okkar bestu leikmönnum en höldum svo áfram að missa þá frá okkur. Þetta er ekki leikmaður sem ég vil missa en ég ræð ekki framtíðinni. Hann er mjög þroskaður og það sést aðallega á allri þessari umræðu um enska landsliðið, hann gefur henni engan gaum og einbeitir sér bara að því að gera sitt besta.
„Ég hef séð aðra leikmenn með aðra umboðsmenn hegða sér á hátt sem sæmir ekki fagmönnum. Það er eitthvað sem James mun aldrei gerast sekur um."
Maddison er búinn að skora fimm mörk og gefa tvær stoðsendingar í sjö úrvalsdeildarleikjum en Leicester er aðeins með fjögur stig þrátt fyrir framlagið.