Liverpool hefur sett sig í samband við fólk sem er nátengt Alexander Isak - Úlfarnir horfa til Jota
banner
   lau 08. október 2022 12:20
Ívan Guðjón Baldursson
Rooney: Ronaldo þarf að sýna þolinmæði og nýta tækifærin

Wayne Rooney, fyrrum leikmaður Manchester United, hvetur Cristiano Ronaldo til að halda rónni og gera sem mest úr þeim tækifærum sem bjóðast undir stjórn Erik ten Hag.


Hinn 37 ára gamli Ronaldo er búinn að missa byrjunarliðssæti sitt hjá Man Utd og virðist vilja skipta um félag. Það virðist þó ekkert félag vera tilbúið til að ráða Ronaldo í starf hjá sér, enda fylgir honum svakalegur launapakki.

Ronaldo hefur aðeins byrjað einn deildarleik það sem af er tímabils eftir að hafa reynt að fara frá félaginu í sumar til að spila í Meistaradeildinni. Ekkert félag sá sér fært að fjárfesta í Ronaldo í sumar og eru litlar sem engar líkur á að sú staða muni breytast í janúar.

„Stjórinn er augljóslega að fara aðra leið í liðsvalinu sínu og sú leið hefur virkað. Eina sem Cristiano getur gert er að sýna þolinmæði og grípa tækifærið þegar það gefst," sagði Rooney, sem var samherji Ronaldo hjá Man Utd frá 2004 til 2009.

„Cristiano og Messi eru tveir af bestu fótboltamönnum sögunnar en tíminn líður hjá öllum. Cristiano er augljóslega ekki lengur sami leikmaður og hann var fyrir rúmum áratugi síðan. Það verður erfitt fyrir hann að sitja á bekknum en ég er viss um að hann muni fá sín tækifæri ef hann bíður rólegur. Það er undir honum komið að nýta tækifærin til að vinna sér aftur sæti í byrjunarliðinu."

Rooney er fæddur sama ár og Ronaldo en hann lagði fótboltaskóna á hilluna í janúar 2021.


Athugasemdir
banner
banner
banner