Francesco Cosatti, fréttamaður Sky Sports er mættur hingað til Englands til þess að fjalla um Evrópumót kvenna.
Fréttamaður Fótbolta.net settist niður með honum á Akademíuleikvanginum í Manchester í dag þar sem á morgun er stórleikur Íslands og Ítalíu.
Fréttamaður Fótbolta.net settist niður með honum á Akademíuleikvanginum í Manchester í dag þar sem á morgun er stórleikur Íslands og Ítalíu.
Cosatti sagði undirrituðum frá því að áhugi ítölsku þjóðarinnar á landsliðinu hefði stóraukist eftir HM 2019 þar sem þær ítölsku fóru alla leið í átta-liða úrslitin.
Ítalski kvennaboltinn er í stórsókn núna; frá og með næsta tímabili verður úrvalsdeild kvenna þar í landi atvinnumannadeild að fullu. Það verður staðið betur að málum og hugsað verður enn betur um leikmennina.
„Góður árangur á HM 2019, það varð til þess að ítalska þjóðin uppgötvaði liðið. Við erum farin að tala mikið um kvennaboltann á Ítalíu og áhuginn er að aukast mikið," segir Cosatti.
Hann segir að ákveðnir leikmenn ítalska kvennalandsliðsins séu þekktar í ítölsku samfélagi.
„Fyrirliðinn Sara Gama, sóknarmaðurinn Cristiana Girelli og hin öfluga Barbara Bonansea. Það var ekki þannig áður fyrr en ef þú sérð Sara Gama í sjónvarpinu núna þá þekkir fólk hana. Fyrir tíu árum var það ómögulegt á Ítalíu."
Hann segir að um þrjár milljónir manns hafi horft á fyrsta leik liðsins á EM gegn Frakklandi.
Núna byrjar nýtt mót
Ítalía tapaði fyrsta leik sínum 5-1 gegn Frakklandi. Cosatti segir að á morgun muni nýtt mót byrja fyrir ítalska liðið, það líti á leikinn gegn Íslandi þannig.
„Þetta er fyrsti úrsltaleikurinn fyrir Ítalíu. Fyrsti leikurin var hræðilegur. Seinni hálfleikur var allt í lagi, en leikurinn var heilt yfir hræðilegur. Núna byrjar nýtt mót fyrir Ítalíu. Það eru tveir leikir eftir til að komast áfram."
„Ítalía verður að vinna á morgun. Ef við vinnum ekki, þá er erfitt að komast áfram."
„Fyrsti leikurinn var hræðilegur og þær vilja gleyma honum. Ítalir eiga að vera sterkara liðið og þær verða að vinna á morgun."
Mikið talað um Söru á Ítalíu
Sara Björk Gunnarsdóttir skrifaði nýverið undir samning við Ítalíumeistara Juventus og mun hún leika þar næstu tvö árin. Sara, sem er tvöfaldur Meistaradeildarsigurvegari, verður eitt stærsta nafnið í ítölsku deildinni sem er á uppleið.
„Ég veit að hún kom til félagsins fyrir um 20 dögum og það var mikið talað um hana á Ítalíu á samfélagsmiðlum og í fréttum. Ég hef verið að fjalla um ítalska liðið í undirbúningi fyrir þetta mót og þegar ég hef talað við leikmenn Juventus í hópnum þá spyrjum við um nýja leikmanninn frá Íslandi. Þær eru spenntar fyrir því að hitta hana," segir Cosatti.
„Ég er viss um að það sé mikilvægt fyrir Serie A að hún sé að koma því hún er stórt nafn í fótboltanum. Deildin er að vaxa og það eru sterkir leikmenn að koma í deildina."
Cosatti er spenntur fyrir leiknum á morgun og vonast hann eftir ítölskum sigri. Þjóðin leyfir sér að dreyma um að liðið nái að fylgja eftir frábærum árangri á HM fyrir þremur árum. Ísland ætlar að reyna að koma í veg fyrir slíkt.
„Strákarnir urðu Evrópumeistarar á síðasta ári og öll ítalska þjóðin vill fá að upplifa annan slíkan draum. Landsliðin eru mikilvæg fyrir fólkið. Það horfðu þrjár milljónir á fyrsta leikinn í sjónvarpinu og vonandi munu enn fleiri fylgjast með leiknum mikilvæga á morgun," segir Cosatti.
Leikurinn hefst klukkan 16:00 að íslenskum tíma og verður í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.
Sjá einnig:
Arsenal og Chelsea höfðu samband en fjölskyldan er í fyrsta sæti
Athugasemdir