„Ég hefði viljað skora fleiri mörk í fyrri hálfleik. Mér fannst við vera miklu betri í fyrri hálfleik og áttum að ná inn tveimur ef ekki þremur mörkum þar. En þeir eru svo meira með boltann í seinni hálfleik og kannski sanngjarnt miðað við seinni hálfleikinn.“ Sagði Frans Elvarsson leikmaður Keflavíkur um úrslitin eftir 1-1 jafntefli Keflavíkur gegn grönnum sínum úr Njarðvík á HS Orkuvellinum í Keflavík fyrr í kvöld.
Lestu um leikinn: Keflavík 1 - 1 Njarðvík
Keflavík var eins og Frans segir mun sterkara liðið á vellinum í fyrri hálfleik þó ýmislegt hafi bent í þá átt að liðið væri að gefa eftir undir lok hans. Nokkuð sem hélt svo áfram er út í síðari hálfleikinn var komið þar sem Njarðvík tók öll völd á vellinum framan af. Hvað gerist á þeim tímapunkti? Eitthvað sem breyttist í leik Keflavíkur eða kveikti lið Njarðvíkur bara á sér?
„Ætli þeir hafi ekki bara fundið eitthvað augnablik hjá sér og komist betur í gang. Við bara mætum ekki nógu vel út í seinni hálfleikinn sem er alltaf erfitt þegar maður er bara 1-0 yfir.“
Vel var mætt á völlinn í Keflavík í kvöld og 1100 manns sleiktu sólina og drukku í sig stemminguna í stúkunni. Nokkuð sem gladdi flesta sem að leiknum komu.
„Já þetta er bara æðislegt. Þetta er svipað eins og í Valsleiknum í bikarnum um daginn. Það er geggjað að fá svona leiki og bara gaman fyrir bæinn en ég hefði verið til í að vinna hann.“
Sagði Frans en allt viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að ofan
Athugasemdir