Íslandsmeistararnir Höskuldur Gunnlaugsson og Damir Muminovic voru gestir í hlaðvarpsþættinum Seinni níu á dögunum. Þátturinn er í umsjón þeirra Loga Bergmanns og Jóns Júlíusar Karlssonar.
„Ég held ég hafi spilað áttatíu og eitthvað hringi í sumar," sagði Damir sem byrjaði að spila golf fyrir rúmu ári síðan. „Ég hafði eiginlega ekkert að gera í fyrrasumar þannig við konan ákváðum bara að fara spila golf. Síðan þá hef ég bara ekki getað hætt að spila."
„Damir æfði varla í sumar, fór úr klefanum í golfdressinu," sagði Höskuldur sem sömuleiðis byrjaði fyrir alvöru í golfi sumarið 2023. „Ég gat ekki horft á félaga mína, óíþróttamannslegu félaga mína, verða miklu betri en ég í einhverju sporti."
Þeir uppljóstruðu að þeir hefðu orðið fyrir meiðslum á golfvellinum.
„Ég fékk eina kúlu í kálfann í sumar. Mér fannst það reyndar bara mjög fyndið, bjóst ekki við svona löngu höggi. Ég þorði ekki að segja frá þessu á æfingu en ég var að drepast í kálfanum," sagði Damir og hló.
„Ég á líka svona augnablik. Ég sveiflaði drivernum það fast að hausinn á kylfunni endaði á hausnum mínum og ég rotaði næstum sjálfan mig. Svo mætti ég á æfingu og sagði ekki neitt. Það er ekki í boði að slasa sig í golfi," sagði Höskuldur sem sagði svo frá því að golfið hefði pottþétt hjálpað til á nýliðnu tímabili.
„Ég get ekki sagt að velgengnin í fótboltanum hafi hjálpað á golfvellium, en golfið gerði 100% mikið fyrir fótboltann. Þetta er mikil hugleiðsla og eitt af því fáa í nútímaheimi þar sem þú getur alveg kúplað þig út."
Höskuldur hefur stundum farið og slegið nokkrar kúlur á leikdegi en hefðin hjá Damir er að fara níu holur daginn fyrir leik.
En hvað segir þjálfarateymið um golfið?
„Þeir fá ekkert að vita af þessu. Ég fattaði að breyta yfir í nafnlaus inn á golfbox. Þá er þetta ekkert vesen," sagði Höskuldur og hló. Damir tók undir og sagðist alltaf skrá sig nafnlaust.
„Nei (þetta er ekkert vesen), nú getur maður sagt allt því það sést hverju þessu skilaði," sagði Höskuldur.
Athugasemdir